fimmtudagur, desember 30, 2004

Lífsgæðakapphlaup

Í Fréttablaðinu í gær var auglýsing frá ,,ódýru" raftækjabúðinni - uppþvottavélar á 20.000 krónur! Vá ekki nema tuttuguþúsund mar... Við rjúkum til og brunum upp í Kópavog, pirruð á snjónum og fávitunum sem sligast áfram fyrir framan okkur. Þegar við loks komumst á staðinn finnum við enga uppþvottavél á tuttuguþúsund. Þær voru báðar búnar. Nú jæja við skoðum þá bara heimabíó í staðinn. Ákváðum þó að kíkja í fleiri búðir, bara svona ef... og viti menn, haldiði að við höfum ekki fundið eina á jólatilboði fyrir 40.000 krónur. Ekki að við höfum verið neitt búin að ákveða að kaupa uppþvottavél, þurfum að kaupa klósett fyrst þar sem það gamla lekur, en fyrst við vorum nú byrjuð á þessu af hverju þá að hætta? Tókum líka viftu fyrir ofan eldavélina með.
Í fyrradag keyptum við hillu í stofuna, náttborð fyrir okkur bæði, en áttum samt eitt náttborð, alls konar geymsluhirslur fyrir skipulag húsfreyjunnar, ramma og ég veit ekki hvað og hvað.

Í gærkvöldi hefndist okkur fyrir þessa óstjórnlegu eyðslu og yfirborðsmennsku þegar 29 tommu, ársgamla sjónvarpið okkar bilaði! Við urðum bæði hundfúl og leituðum dauðaleit að ábyrgaðarbréfinu en fundum ekki. Ætli við ,,verðum" ekki að kaupa okkur annað rándýrt sjónvarp fljótlega....?

Það er nebblea það. Þegar maður á ekki neitt þarf maður ekki neitt. Svo þegar maður eignast hluti verða þeir ómissandi.

Þetta getur komið fyrir besta fólk, jafnvel líka mig!


fimmtudagur, desember 23, 2004

GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR. HEYRUMST SÍÐAR!

Hálpum þeim

Þrátt fyrir að það sé gott og gilt að senda föt til Rauða krossins eða kaupa föt í Rauða kross búðinni, þá hafa fatasendingar til þróunarlanda líka slæm áhrif á atvinnulíf kvenna. Margar konur vinna við að sauma og selja föt, og er það þeirra lifibrauð. Föt sem eru gefins eða seld á smotterí af hjálparstofnunum eru það ódýr að viðskipti við saumakonurnar minnka og þar af leiðandi græðir hjálparstofnunin meira en saumakonan. Þannig að þetta er ekki allt saman gott, þó auðvitað sé þetta líka gott.

miðvikudagur, desember 22, 2004

Þjóðarhreyfingin

Ég er ekki hrifin af auglýsingunni sem Þjóðarhreyfingin ætlar að setja í New York Times. Mér finnst asnalegt að setja auglýsingu um að við viljum ekki stríð í okkar nafni. Er allt í lagi að fara í stríð bara á meðan við skrifum ekki undir það. Mér finnst að þessi auglýsing ætti frekar að snúast um að við viljum EKKI stríð YFIR HÖFUÐ! Þess vegna styrkti ég ekki Þjóðarhreyfinguna til að birta þessa auglýsingu. Hefði jafnvel gert það ef hún hefði verið orðuð öðruvísi. Finnst að við sem erum á móti þessu stríði verðum að ritskoða sjálf okkur meira en ekki taka allri gagnrýni á stríðið sem heilögum sannleika.


HA!!!

Nafnar sem ég kalla Bangsi 1 og Bangsi 2.

Bangsi 1: Gunnhildur, ég ætla að minna þig á að slökkva á tölvuskjánum áður en þú ferð heim úr vinnunni á daginn, annars verður þú rassskellt!

Gunnhildur: óókkeeeeei

Bangsi 2: Við vorum búnir að segja henni það, af hverju heldur þú að hún hlýði ekki?
(Mér finnst þetta svo sem alveg fyndið, hefði samt verið fyndnara ef ég hefði svarað þeim og rústað þeim í ,,vúlgarkeppni").

þriðjudagur, desember 21, 2004

Bjáninn á undanhaldi

Eru karlmenn, sem fara með konunum sínum í búðir og pæla í hvernig fötum börnin þeirra eiga að vera í um jólin, undirlægjur og kúgaðir ræflar sem láta kvenþjóðina ráðskast með sig eins og strengjabrúður? Eða eru þetta nútíma karlmenn sem bera virðingu fyrir stressi og fullkomnunaráráttu okkar kvennanna þegar kemur að jólaundirbúningi og eru í hjónabandi sem byggist á jafnréttisgrundvelli þar sem báðir aðilar taka þátt í öllum undirbúningnum?

Samkvæmt heimildum mínum hérna á skrifstofunni er fyrri skýringin rétt. Í sama afkima og ég sitja þrír karlmenn, tveir á milli þrítugs og fertugs líklega og einn milli fertugs og fimmtugs. Þessir yngri eru voða sniðugir og segja brandara allan daginn en sá eldri er nokkuð feiminn og kannski ekki eins húmorískur. Þessir ungu fyndnu gæjar halda daglega ræður um hvað konurnar þeirra séu kaupóðar og hversu mikill sársauki það fylgir að þurfa að taka ákvörðun með þeim um jólakjól handa dótturinni eða sófaborð í stofuna. Þeim finnst konur gera alltof mikið úr öllu og vera lengi að þannig að þeir hafa einfaldlega sett sér þá reglu að fara aldrei með þeim að versla né taka þátt í jólaundirbúningnum á annan hátt. En segjast þó taka þátt í heimilisstörfunum. Eldri maðurinn er allt öðruvísi, hann hringdi út um allann bæ í leit að jólakjól á dóttur sína, emailiaði vinafólki í Danmörku bréf um að redda fyrir hann skó á heimasætuna og bauðst til að leika jólasvein á jólaballi fyrirtækisins. Ekki nóg með það heldur hringdi hann í son sinn í dag, eftir að hann fattaði að hann hafði óvart étið nammið hans, og bauðst til að kaupa nýtt.

Ungu köllunum finnst hann alger jólasveinn og láta tjellinguna algerlega ráðskast með sig. Þeir gera óspart grín að honum og segjast sko sjálfir aldrei láta bjóða sér svonalagaða. Huh segja þeir.
Samkvæmt þeim er hann undirlægja en þeir ákveðnir karlmenn sem láta ekki segja sér fyrir verkum. Það er svo náttúrulega spurning hvað gerist inn á milli veggja heimilisins.

Svona KALLAmennska er svolítð sérstök. Þeir virðast einhvern veginn ekki vilja viðurkenna að þeir séu mjúkir og góðir inn við beinið, þurfa að vera svo töff út á við. Ég held að við konurnar fílum það ekker. Mér finnst amk að karlar eigi að mýkja sig aðeins upp og dúllast svolítið með konunum sínum um jólin. Þeir völdu sér nú flestir konu til að búa með - ekki annan karl.

mánudagur, desember 20, 2004

Hrokagikkur

Ég er hrokagikkur og dóni. Ég segi hluti sem ég á ekki að segja og fæ svo í magann af áhyggjum yfir hálvitaskap mínum. Ég held mér hafi tekist að móðga amk 6 manns um helgina með yfirlætisfullum fullyrðingum sem eiga ekki við rök að styðjast. Átti að vera grín, en að sjálfsögðu fær fólk það á tilfinninguna að öllu gamni fylgi alvara þegar svona er sagt. Ég biðst innilegrar afsökunar (held samt að enginn sem hlut á að máli lesi þetta) á því að vera fljótfær og tala alltof mikið áður en ég hugsa. Tek það fram að engin alvara fylgdi - bara gaman.
Ég ætla samt ekki að fara útí afsökunarherferð því af fenginni reynslu mun það bara gera illt verra. Vona innilega að þetta fólk viti að ég er bjáni og láti það nægja sem ástæðu en fari ekki að ímynda sér að það sé ekki nógu gott. Þannig er það ekki, ég er bara bjáni.


föstudagur, desember 17, 2004

Þarna komum við okkur í klípu!

Ég er viss um að Bandaríkjamenn setji á okkur viðskiptabann í kjölfar þess að við veitum Bobby brjálæðing Fisher dvalarleyfi á landinu. Annað eins hefur nú gerst. Við eigum eftir að verða snauð þjóð og fáum ekki notið lágs gengis dollarans því okkur verður bannað að versla við Bandaríkin. Eftir 40 ár munu ferðamenn flykkjast til landsins til að sjá okkur ,,áður en allt breytist" og eyjan snýst til nýtímahorfs. Þeir sem hingað koma munu þurfa að borga offjár, skattfrjálst, til að fá lendingaleyfi og við sem viljum flytja héðan verðum að synda yfir Atlantshafið - ef það tekst megum við setjast að í Bandaríkjunum eða Evrópu. Ef við flýjum með flugvél, verðum við tafarlaust sent heim aftur nema Bandaríkjaforseti (sem verður hvítur miðaldra karlmaður) túlki flótta okkar sem mótmæli við einræðisherra okkar HR. Davíð Oddsson - sem á ögurstundu stóð upp í hárinu á Bandaríkjunum og mótmælti utanríkisstefnu þeirra með því að veita einum helsta glæpamanni og föðurlandssvikara þjóðarinnar dvalarleyfi á Ísland - og taka við okkur sem pólitískum flóttamönnum.

Heimsbyggðin mun finna til samúðar með okkur en dást í laumi að staðfestu okkar og tryggð við foringja vorn sem verður hátt á tíræðisaldri og yfirvofandi fráfall hans mun valda okkur, jafnt sem heiminum öllum óstjórnlegum kvíða. Munum við standa við stefnu okkar eða munum við grafa lík Bobby Fisher upp og framselja það til Bandaríkjanna, og þar með gangast frelsinu á hönd?

Já Davíð minn - þetta gæti verið framtíðarsýn okkar ef þú sérð ekki að þér strax og framselur svikarann...!

þriðjudagur, desember 14, 2004

Ef Jón Ársæll væri kona en Sirrý væri karl, ætli Fólk með Sirrý myndi vinna Edduna en Sjálfstætt fólk vera kallaður væminn tjellingaþáttur? Jafnvel þó þeir væru alveg eins og þeir eru?
Maður spyr sig...!

Annað sem ég velti fyrir mér. Það eru þessir styrkir til góðgerðarmála. Við kaupum til dæmis jólakortin í ár til styrktar barnaspítala hringsins og krabbameinssjúkum börnum. Gott hjá okkur og ekkert við það að athuga. En... af hverju þurfa barnaspítalinn og krabbameinssjúk börn á styrkjum að halda? Væri ekki eðlilegra að ríkið sæi um að þessar stofnanir og aðstandendur hefðu nóg? Er það eðlilegt að fólk sem er með langveikt barn hafi ekki efni á því að sinna því og spítalinn sem það liggur á þurfi að treysta á frjáls framlög frá samborgurum sínum? Pæliði til dæmist í því ef að Lions konur, Hringskonur og fleiri góð kvenfélög um allt land hefðu ekki safnað fyrir alls konar ómtækum og hjartalínuritatækjum fyrir spítala, heilsugæslustöðvar og hjartavernd til dæmis. Væri þá allt í ólestri og engin ný tæki fengin inn á þessar stofnanir? Væri þá ennþá verið að nota sömu tækin og fyrst voru keypt, fyrir kannski 40-50 árum síðan? Svo maður tali nú ekki um Barnaspítalann sjálfan, hann er til vegna þess að Hringskonur söfnuðu fyrir honum - hefðu þið ekki alveg verið tilbúin að láta skattana ykkar í byggingu barnaspítala? Örugglega flestir hugsa ég. En neibb, konur útí bæ þurftu að safna fyrir honum.

Þetta er allt út í hött - öll þessi happdrætti og söfnunarkassar til að fatlaðir, þroskaheftir, heyrnalausir, veikir, blindir o.s.frv. geti lifað almennilegu lífi. Við eigum ekki að þurfa að gera þetta, og við eigum ekki að þurfa að standa í svona rugli til að lifa almennilegu lífi.

Tryggingar falla undir sama hatt, við eigum ekki að þurfa að borga morðfjár til að tryggja okkur fyrir öllum ansk... sumir hafa ekki efni á þessu og sumir fá ekki tryggingar vegna veikinda og eru þ.a.l. mun verr settir en hinir sem aldrei hafa veikst. Er einhver lógíg í þessu - nema náttúrulega hagnaðartrygging tryggingafélagsins. Sem leiðir okkur út í það að tryggingafélög ættu ekki að vera einkarekin gróðrafyrirtæki ef þau eiga að þjóna tilgangi sínum. En nú er ég hætt... takk fyrir lesturinn og eigðu góðan dag:)

fimmtudagur, desember 09, 2004

Tímaeyðsla

Jæja þá er hálftími eftir af vinnudeginum og best að hætta bara að vinna og fara á netið - segi svona...

Í kvöld verður gaman, þá kemur sæti kærastinn minn heim frá ljóta reyðó. Ég hlakka til að hitta hann og knúsa og kyssa. Hann er nebbla vooða góður kyssari thíhíhí - langaði ykkur ekki til að vita þetta??? En áður en hann kemur heim fer ég í matarboð til Laugavegsgellanna með meiru og það á að vígja heita pottinn uuuuummmmm goooooot. Húsmóðirin mun örugglega elda eitthvað gúmmelaði handa okkur - enda ekki við öðru að búast af húsmóður. En áður en ég fer í mat, kemur vonandi skáldkonan úr Nesinu að heimsækja mig - ef hún verður ekki föst í verslunarmaníu í kringlunni. Það er bara allt að gerast í kvöld og í gærkvöldi þá hitti ég hluta af Kúbuskvísunum, vantaði því miður 3 stelpur og alla strákana. Já félagslífið tekur af manni allan tíma þannig að jólaundirbúningurinn gleymist. En satt að segja böggar það mig ekki neitt, ég er alveg róleg yfir jólunum. Þau koma þó það verði ennþá ryk undir rúminu mínu. Kallarnir í vinnunni eru alltaf að tala um konurnar sínar og hvað það séu hreingerningaóðar ??? skil ekki hvað þetta orð þýðir einu sinni...

Jæja en ég ætla að fara að koma mér heim - ekki láta vinnuna trufla félagslífið
chaooo bellla


miðvikudagur, desember 08, 2004

Kroppurinn í kássu

Það var heilsumæling í vinnunni minni og ég fór áðan. Ég er fín að öllu leyti nema því að ég er miklu feitari en ég lít út fyrir að vera:) Fitumagnið í líkamanum mínum mældist 38,2 en æskilegt er að það sé um 20-25. Hjúkkan mældi mig 5 sinnum og sagði að þetta gæti ekki passað. Hún hélt að ég væri í svo góðu formi að vöðvarnir gætu ruglað þetta eitthvað, sagði að það hefði oft áhrif. Ég hélt ekki... En eitthvað skrítið er þetta sagði hún, gæti líka verið af því ég er svo smáhent og náði ekki yfir allan segulinn sem átti að halda í.

En þessi tala er frekar fyndin, þetta er ein enn talan fyrir okkur að hafa áhyggjur af. Ekki nóg með að vigtin böggi okkur, heldur eitthvað fitumagn! Sumar konurnar hérna höfðu áhyggjur af því að þær voru of háar, ein var með heila 25! Fannst það rosa hátt og sagði að hún væri feitari en hún lítur út fyrir mú ha ha. Ég held að ég hafi nú vinninginn - örugglega feitust miðað við þyngd!

En þetta er sem sagt ekki góður dagur fyrir kroppinn minn - en fer batnandi. Fyrir utan það að uppgötva að ég sé offitusjúklingur;) þá er ég að drepast úr vöðvabólgu í öxlunum og með bilaðan þurrk í augunum. En ég fór í apótekið og keypti dropa og fer svo í dekur á eftir - andlitsbað og vonandi smá nudd niður á herðar. Útskriftargjöf frá Kúbukrúttunum sem ég var að falla á tíma með. vei vei vona að þetta verði ekki eins og ég lenti í í Tyrklandi. Jakk það var viðbjóður. Við Palli fórum í tyrkneskt bað og allt voða næs. Nema nuddið eftir á, þá lenti ég hin heppna í mesta perra sem finnst í landinu. Hann kallaði sig Tiger Ali og potaði í naflann á mér oj og það er viðbjóðslegt. Svo var hann eitthvað að segja að ég væri sæt og spyrja mig hvað ég héti og spurði mig svo hvort hann mætti losa bikínihaldið mitt! Ég fæ hroll ennþá þegar ég hugsa um hann birr.
Ekki gott fyrir fólk sem er með nuddfóbíu eins og ég. Lendi alltaf í svona, eins og á Kúbu, það var nú fyndið, en ekki perralegt.

En bless í bili

þriðjudagur, desember 07, 2004

Jahá hvað skal segja. Ég er að reyna að vera dugleg að skrifa því það er svo leiðinlegt þegar fólk skrifar ekki, en ég er nú heldur betur ekki sú duglegasta. Er hreinlega í einhvers konar skammdegisdái. Ekki neinu þunglyndi, sem betur fer, heldur einhvers konar 1. gír eins og Palli orðaði það. Framkvæmdagleðin í algeru lágmarki. Enda er alltaf dimmt, maður fer í vinnuna í myrkri og kemur heim í myrkri þannig að manni finnst alltaf vera kvöld. Þyrfti að fara að jólast aðeins meira til að koma mér í gírinn.

Ein pæling. Mér finnst gaman að tala og ekki síst um sjálfa mig. Ætli ég eigi þá eftir að tala látlaust um börnin mín þegar/ef þau koma í heiminn? Fólkið í vinnunni minni er alltaf að segja sögur af honum litla sínum þriggja og hálfs og henni litlu sinni 18 mánaða sem gerðu hitt og þetta. Allt í lagi, hægt að hlusta á leiðinlegri samræður (?) en ég vona að ég verði ekki sítalandi um Pál Pál litla. En kannski er ég bara svo mikill egóisti að það breytist ekki neitt þegar ég eignast börn, mér á kannski ennþá eftir að finnast miklu skemmtilegra að tala um sjálfa mig en krakkann hehe. Nema ég eigi bara eftir að tvöfaldast í ,,tali" - Guð hjálpi ykkur! ;)

Jólaglögg á föstudaginn í vinnunni, smákökujólaglögg á laugardaginn - get alveg eins verið full fram að jólum...

mánudagur, desember 06, 2004

Draumur

Var mjög þyrst í nótt. Fattaði það samt ekki fyrr en ég vaknaði og uppgötvaði að mig var búið að dreyma látlaust að ég væri að þamba vatn og hvítvín! Var líka frekar nett þegar ég vaknaði... he he.

fimmtudagur, desember 02, 2004

Átak gegn kynbundnu ofbeli

miðvikudagur, desember 01, 2004

Lögmál nauðganna!

Ekki:

,,Lögreglan í Reykjavík vill vinsamlega beina þeim tilmælum til karlmanna með afbrigðilegar kynhneigðir að leita sér hjálpar í stað þess að láta þær bitna á saklausum börnum og konum"!

,,Lögreglan í Kópavogi vill vinsamlega beina þeim tilmælum til karlmanna að taka ekki ókunn börn upp í bílinn sinn ef þeir hafa kynlegar athafnir í huga"!

,,Lögreglan í Vestmannaeyjum vill vinsamlega beina þeim tilmælum til karlmanna að nauðga ekki útúrdrukknum stúlkum sem eru einar á ferð, né gefa þeim eiturlyf til slíkra athafna"!

Heldur:

,,Lögreglan í Reykjavík vill vinsamlega beina þeim tilmælum til foreldra að hafa augun opin fyrir einkennum og hegðun sem gæti bent til þess að kynferðislegt ofbeldi viðgangist"!


,,Lögreglan í Kópavogi vill vinsamlega beina þeim tilmælum til barna að fara ekki upp í bíla með ókunnugum karlmönnum - þeir gætu verið hættulegir"!

,,Lögreglan í Vestmannaeyjum vill vinsamlega beina þeim tilmælum til stúlkna að vera aldrei einar á ferð, útúrdrukknar né þyggja eiturlyf af ókunnugum"!

Vegna þess að það er lögmál að það séu til nauðgarar og barnaníðingar. Við hin verðum bara að passa okkur og ef við gerum það ekki - ja þá getum við bara sjálfum okkur um kennt og verið þakklát fyrir að hafa ekki verið drepin!

Kannski kominn tími til að breyta þessari orðræðu og láta þá bera ábyrgðina sem hana bera!Powered by Blogger