föstudagur, október 28, 2005

Ekkert markvert

Sökum óveðurs kemst karllufsan mín ekki heim og í staðinn sit ég uppi með bróður minn. Hver vill skipta á kærasta og bróður? Þó bræður séu í sjálfum sér ágætir. Við erum því bara hérna heima að lufsast, örkuðum út í vonda veðrinu að ná okkur í pizzu á jeppanum mínum. Hann komast sko alla leið og tilbaka. Við örkuðum sem sagt bara út í bíl. En það var nú alveg nógu langt ark. En mig langar að fá Palla heim - heyrir þú það Páll, komdu þér heim! (en ekki samt fara út í vonda veðrið og týnast, þá verð ég voðalega leið).

En núna man ég að ég á alveg eftir að segja ferðasöguna frá Tyrklandi. Humm það var rosalega gaman, rólegt og notalegt. Nema í Istanbul þá var ekki mjög rólegt því við fengum smá verslunarmaníu og vorum orðin svo þreytt, sérstaklega ég, að við rétt meikuðum að koma okkur heim á hótelið. En við fórum oft út að borða hinn dámsamlega tyrkneska mat eins og sést hér:

Þarna erum við að borða á veitingastaðnum sem bróðir Erols svila míns vinnur á.


Fyrir utan það að borða og versla lágum við í sólbaði og drukkum kokteila: (Vonandi fer þessi nektarmynd ekki fyrir brjóstið á neinum).
Svo gerðum við einnig mikið af því að geifla okkur framan í lítið kríli, sem mér því miður tekst ekki að setja mynd af inn, það fraus allt. En geri það kannski næst.

Svo náttúrulega hugsuðum við um fátæku börnin í Afríku og fengum okkur annan kokteil...


Var þetta ekki góð ferðasaga?

Tú tú...

miðvikudagur, október 26, 2005

Greinilega fleiri að glíma við vandann..

Fann grein um nákvæmlega það sama og ég var að skrifa í síðasta pistli. Kannski bara betur orðað hjá Auði Kommúnufélaga en mér.

þriðjudagur, október 25, 2005

Kvennafrídagurinn er í dag

Dagurinn í dag var frábær, hefði samt mátt halda fundinn mikla á Lækjartorgi í staðinn fyrir á Ingólfstorgi því það var einfaldlega of lítið. Skammir til þeirra sem vildu ekki stoppa strætóumferðina fyrir 50 þúsund konur og karla:(

Í tilefni dagsins verð ég að tala aðeins um kvenréttindamál og vil ég sérstaklega beina þessum skrifum til karlmanna. Þetta eru smá skammir til þeirra en ekki samt verða sárir, vil bara aðeins láta ykkur pæla í þessu. Vona bara að það lesi einhverjir karlar þetta blogg, og þið fáu sem það gerið látið vini ykkar vita af því.

En þannig er mál með vexti að oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hef ég lent í rökræðum við karlmenn um feminisma (hver hefði trúað því???) og oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hef ég fengið þau rök GEGN kvenréttindabaráttunni að karlar verða fyrir algeru misrétti þegar kemur að forræði yfir börnunum. Þeir segja þá oft eitthvað á þessa leið: ,,En hvað með forræði, þá hefur konan algerlega réttin sín megin jafnvel þó að ég sé miklu betri faðir"?
Já segi ég, það er ömurlegt og mér finnst algerlega óhæft að konur fá nánast undantekningarlaust forræði yfir börnunum við skilnað án tilliti til hæfni (nema þær hafi gert eitthvað rosalegt af sér).

EN!!! Það breytir því samt ekki að við höfum fullann rétt á því að berjast fyrir því sem hallar á okkur, launamuninum, kynferðislega ofbeldinu og öllu hinu sem eftir á að laga! Stundum hef ég það á tilfinningunni að karlar séu að segja við mig að við tjellingarnar eigum bara að sitja og bíða eftir því að það verði búið að koma öllum málefnum karlanna í höfn, að þeir njóti allra þeirra réttinda sem þeir eiga rétt á og þá fyrst megum við byrja að rífast. Eins og við höfum engan rétt á því að tala um misrétti af því að það hallar á þá að þessu leyti.

Mér var ekki kennt að bíða eftir því að fá mér að borða þangað til bræður mínir væru búnir og hef ekki hugsað mér að byrja á því núna! Við getum alveg borðað saman!

mánudagur, október 24, 2005

Er kvenkyn neikvætt?

Verður starfsheitið mikilvægara og virðulegra ef það er í karlkyni??? Sbr. hjúkrunarkona er núna orðið hjúkrunarfræðingur, skúringakona er orðið ræstitæknir, tala nú ekki um að aldrei yrði jafn háttsett starf eins og ráðherra sett í kvenkyn. Valgerður Sverrisdóttir Iðnaðar - og viðskiptaráðfrú. Held nú ekki! En mig rak sem sagt í rogastans um helgina þegar framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands var að tilkynna um nýjan fóstra á Skagfjörðsskála í Langadal. Það er nefninlega þannig að allir skálar hafa fóstra. Fóstri er karl sem sér um viðhald skálans sem hann fóstrar. Skagfjörðsskáli fékk nýlega nýjan fóstra sem vill svo skemmtilega til að er kona. En konan er ekki FÓSTRA nei hún er fóstrI!!!! Er það ekki svolítið furðulegt? Er þetta orð fóstri/fóstra, ekki bæði til í karlkyni og kvenkyni????? Af hverju er ekki bara notað þetta gamla og góða orð fóstra þegar það þýðir nákvæmlega það sama og fóstri en segir okkur að sú sem fóstrar er kona???

Ég skammaði náttúrulega framkvæmdastjórann fyrir þetta seinna um kvöldið, þegar ég var komin ágætlega í glas, he he, og hann var nú reyndar bara alveg sammála mér - en hann hafði bara ekki hugsað út í þetta. Held reyndar að það verði svolítið erfitt að breyta þessari ,,málfarsvenju" hjá félögum í Ferðafélaginu sem er ákaflega karllægur félagsskapur, en ég ætla nú ekki að dæma strax og vona að svona ,,hugsunarleysi" sé á undanhaldi.

En allar konur landsins - TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN !!!! Víhú áfram stelpur!!!
Ég trúi eiginlega ekki að þetta sé að gerast - og ég tók engan þátt í að skipuleggja þetta, það er actually feminísk bylgja í gangi og ég er ekki lengur ein af fáum með þessar skoðanir. Ví hú en ég ætti náttúrulega að vera duglegri að gera eitthvað í því í staðinn fyrir að nöldra bara. Mæti í dag í hlýjum fötum og hef hátt. Hlakka til að sjá ykkur allar og alla strákana sem styðja okkur.

Gleðilegan kvennfrídag
Gunnhildur feministi sem er MJÖG stolt af því - líklega aldrei verið stoltari en í dag!!!!

föstudagur, október 21, 2005

Sumar vísur eru aldrei of oft kveðnar...

Endur fyrir löngu, í landi langt langt í burtu, rakst falleg, sjálfstæð og sjálfsörugg prinsessa á frosk þar sem hún sat og velti vöngum yfir vistfræðilegum álitamálum við bakka ómengaðrar tjarnar á fagurgrænu engi nálægt kastalanum sínum. Froskurinn stökk upp í kjöltu prinsessunnar og sagði: Fagra frú, ég var eitt sinn gjörvilegur prins en grimm norn lagði á mig álög. Ef þú smellir á mig einum kossi mun ég aftur verða að þeim snotra prinsi sem ég raunverulega er. Þá getum við, mín kæra, gifst og stofnað heimili í kastalanum þínum. Þú getur framreitt málsverði fyrir mig, þvegið klæði mín, alið börnin mín og fundið til þakklætis og hamingju um alla eilífð. Sama kvöld sat prinsessan yfir málsverði sínum - léttsteiktum froskalöppum - og hló lágt með sjálfri sér: Ég held nú fokking síður!

MUNUM EFTIR KVENNAFRÍDEGINUM Á MÁNUDAGINN.......

miðvikudagur, október 19, 2005

Komin heim

Jæja þá erum við komin heim en Palli farinn aftur frá mér, upp á fjöll eins og vanalega.
Ég er bara heima hálflasin og þreytt eitthvað, vaknaði klukkan hálfsjö í morgun og gat alls ekki sofnað aftur, hef svo sem ekki átt við það vandamál að stríða fyrr.
Ætla bara að hafa það ógeðslega gott í dag, er að elda mér pasta og svo er planið að leggjast upp í sófa og horfa á fyrstu seríuna af beðmálunum sem sjónvarpskonan Bjargey tók upp. Nenni ekki að taka upp úr töskunum strax, eða þ.e. fötin upp af stofugólfinu því þau lentu eiginlega þar í gærkvöldi þegar ég var að sýna Bjargeyju allt.
Núna er því bara leti, heyrumst.

miðvikudagur, október 05, 2005

Andlausi eyminginn á leið til Istanbul

Gífurlegt andleysi á sér stað þessa dagana - er á leið til Tyrkjaveldis á hinn daginn, eða eiginlega á morgun því klukkan er næstum eitt eftir miðnætti.
Kannski ég geti sagt einhverjar skemmtilegar sögur þaðan þegar ég kem heim. Núna er það bara heiladá og vanvirkni. Treysti tyrknesku köllunum 100% til að sjá um góðar sögur fyrir mig. Kannski ég kíki bara í heimsókn á Ástarfleyið - það verður víst á sömu slóðum og við. Það væri nú saga til næsta bæjar og gott bloggefni fyrir letibloggara.
Jæja ætla að hunskast í bólið og vakna eldhress í fyrramálið og pakka niður öllum sexý bikíniunum mínum. Svo verður bara hellt kokteil í kallin með brjóstaskorunni eins og í gamla daga. Ætti nú að fara létt með það, enda meðlimur í stórubrjóstaferðafélaginu og jeppaklobbafélaginu, sjá nánar hér.

Góða ferð segiðið - Takk fyrir það og hafið það gott kæru lesendur.

TyrkjaGunnsa kveður að sinni.

Powered by Blogger