miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Siggi litli vill ekki vera lauslætismelur

Siggi var saklaus og ólífsreyndur. Pabbi hans hafði verndað hann frá ágengum stelpum frá því að hann fór fyrst að breytast í fullorðinn karlmann. Siggi fékk ekki að fara út úr húsi nema í fylgd með eldri systur sinni sem verndaði hann og passaði að hann léti stelpunum ekki eftir æskuljóma sinn, sem er svo mikilvægur fyrir hvern ungan pilt. Hvaða ungi drengur vill ekki koma ósnortin í hjónasængina, búinn að geyma sveindóm sinn fyrir hina einu sönnu? Auðvitað allir ungir drengir. Siggi var engin undantekning. Jafnvel þó að hann finndi stundum fyrir þrá milli fótanna ef stúlka snerti hann of innilega, vildi hann ekki vera dæmdur sem óhreinn lauslætis melur. Hann gerði sér grein fyrir því að stúlkurnar myndu ekki vilja hann nema hann væri hreinn sveinn. Jafnvel þó þjóðfélagið væri að breytast og sumir strákar á hans aldri hefðu leyft einni eða tveimur stúlkum að snerta sig, og jafnvel ganga lengra, fannst honum hann ekki geta gert það, ef hann á annað borð vildi vera valin af þeirri bestu. Hann hafði heyrt um stráka sem létu eftir stelpunum og einn hafði jafnvel gerst svo óforskammaður að ganga með verjur í veskinu sínu. Stelpan sem hann hafði leyft að ganga langt með sér varð fokvond og áskaði hann um að vera lauslætismel og henti honum út, kallandi á eftir honum fúkyrðum sem Siggi gat varla haft eftir. Þau voru eitthvað á þessa leið að hann minnti; hórus, melur, djöfulsins nautið þitt - sefur hjá öllu sem hreyfist, allrakvennagígur helvítis hundurinn þinn.
Siggi vildi auðvitað ekki vera dæmdur sem slíkur maður - fallinn maður eins og þessi kunningi hans. Faðir hans hafði kennt honum það að stelpur beri ekki virðingu fyrir strákum sem sofa hjá mörgum stelpum. Hann hafði meira að segja séð í skólanum svarta bók þar sem nöfn þeirra stráka er sofið höfðu hjá voru skrifuð - þeim var líka gefin einkunn. Þessir strákar áttu engan möguleika á að vera valdir sem heiðviðrir unnustar og eiginmenn. Þeir voru bæjarmelarnir.

Einn veturinn komu margar erlendar konur í bæinn hans Sigga, þær voru að vinna á sjúkrahúsinu. Strákarnir urðu hrifnir af þessum konum sem voru svo blíðar og miklar dömur. Þær báru virðingu fyrir þeim, gáfu þeim blóm og létu þeim líða vel. Nokkrir strákanna féllu og létu þessum konum eftir vilja sinn og misstu sveindóminn. Eðlilega urðu foreldrar og aðrir ekki hrifnir af þessum hræðilegu atburðum, stelpurnar í bænum sendu bæjarstjóranum bréf um að vísa konunum úr bænum, umræður urðu í blöðum og sjónvarpi og þeir föllnu voru úthúðaðir lauslætis melar og útlendingasleikir. Vesenið var þetta kallað. Núna mörgum árum síðar er þetta ennþá skammarblettur á bæjarfélaginu og helst aldrei um þennan hroðalega atburð talað, nema þá til að minna á hverjir hefðu gerst sekir um að svíkja hina íslensku kvenþjóð með því að sænga hjá ÚTLENDINGUM!

framhald síðar...

2 Comments:

Blogger B said...

Ég vona að Siggi haldi í æskuljómann sinn en sængi ekki með hjúkkunum erlendu sem líta eflaust á hann sem ekkert meir en afþreyingu og stundargaman.

Annars bíð ég spenntur eftir framhaldinu :)

10:34 f.h.  
Blogger bergie said...

snilld snilld snilld
ég get varla beðið eftir framhaldinu

11:45 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home

Powered by Blogger