miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Afmælispistill

Ég skoða stundum (ok oft) feministaspjallið og hef misjafnlega gaman af. Núna eru miklar umræður um ábyrgð vændikvenna á gjörðum sínum vs. ábyrgð kúnnans/pimpsins. Ég ætti kannski að skrá mig þarna inn og ræða málin en held að ég myndi ekkert vinna ef ég færi út í þá sálma. Þess vegna nota ég bara minn einræðisvef til að koma fram mínum skoðunum. Gildir svo sem ákveðið málfrelsi hér en ekki of mikið... :)

Alla vega þá eru umræðurnar um að vændi sé dulið kynferðisofbeli sem yfirleitt karlmenn beita gegn konum og borga fyrir það í þokkabót. Þessu eru karlmennirnir á spjallinu ekki sammála og vilja meina að ákveðin kona, en saga hennar er sögð þarna, beri fullkomlega ábyrgð á eigin gjörðum og hafi vel getað valið sér eitthvað annað. Ég er svo sem alveg sammála því, ég myndi til dæmis aldrei velja það að fara út í vændi þó ég væri staurblönk. Hins vegar gleymir fólk að pæla í skilaboðunum sem samfélagið sendir okkur látlaust - alls staðar frá. Við sjáum sjaldan hina dökku hlið vændis, vonleysið, auðmýkinguna og ömurlegt sálarástand þeirra er það stunda. Við sjáum bara fallega mynd sem klámmyndaframleiðendur og aðrir sem aðhyllast vændi draga upp af þessum iðnaði, til að kúnninn geti talið sér trú um að hann sé ekki að gera neinum neitt - bara að nýta sín ,,sjálfsögðu mannréttindi" að fá á broddinn. Því ef að hann sæi dökku hliðina, myndi hann kannski hugsa sig tvisvar um... og pimpinn græða minna.

Vegna þessarar glansmyndar sem við sjáum er kannski ekki nema rökrétt að einstaka fólk sjái ekki í gegnum þetta og hugsi með sér: ja þessi þarna gella í Kópavoginum virðist hafa það fínt sem hóra, kannski ekki svo vitlaust. Skjótfengin gróði því nóg er til af perrunum.

Þetta sama fólk gerir sér ekki grein fyrir afleiðingunum sem þessi ,,ákvörðun" mun hafa á sálarlíf þeirra því í rauninni er þetta ekkert öðruvísi en að leyfa fólki að borga fyrir að ganga í skrokk á manni - nema að kynferðisofbeldi er þúsund sinnum verra fyrir þolandann.

Ábyrgðin er því svolítið loðin því ef við tökum ákvörðun um eitthvað sem samfélagið segir okkur að sé í lagi - en reynist svo djöfullegt bæði fyrir sál og líkama - er hún þá í rauninni algerlega á eigin ábyrgð????

...og svo náttúrulega fyrir utan það þá eru flestir þeir sem stunda (eða lenda í vændi) ungir krakkar sem hafa verið seld eða neydd eða hafa ekki vit á því sem þau eru að gera - og afleiðingarnar fyrir sálina og líkamann svo hrikalegar að þau ná sér jafnvel aldrei.

Þess vegna skil ég ekki - og mun aldrei skilja af hverju fólk heldur áfram og áfram endalaust að verja þetta ógeð og halda því fram að í frelsinu eigi að felast rétturinn til að kaupa sér vændi.
Frelsi fyrir þá hvern - á kostnað hvers?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home

Powered by Blogger