föstudagur, febrúar 04, 2005

I´m alive

Sóley jarðfræðingur bað mig að fara að blogga - verð að hlusta á lesendur og svara eftirspurninni.

En þá er það hvað ég á að skrifa. Keypti mér græna peysu í gær á 990 kr. Tvennt gott við það. Grænn litur er sumarlitur og gefur manni gleði og 990 kr. eru ekki svo margar krónur á íslenskan mælikvarða svo þær gáfu mér líka gleði fyrir að vera svona fáar. Snjórinn úti er hins vegar ekkert voðalega sumarlegur en birtan er góð. Munar miklu að fara heim í birtu en myrkri, og ef maður vaknar seint á morgnana, getur maður náð smá birtu á leiðina í vinnuna. Sem sagt, mæta seint og fara snemma... he he.

Ég fer í mína sveit um helgina, er samt ekki búin að ákveð hvort ég eigi að fara í kvöld eða horfa á Idol og fara á morgun. Kemur í ljós. En hann karl faðir minn ætlar að halda veislu á sunnudaginn til heiðurs Jóni Guðlaugi bróður mínum sem var að taka sveinspróf. Kallinn notar hvert tækifæri sem gefst til að monta sig á afkvæmum sínum og heldur veislur þeim til heiðurs eins oft og mögulegt er. Nema þegar þau eiga afmæli enda ætti mamma frekar að fá gjafir fyrir hverja fæðingu sem hún hefur staðið í þ.e. átta sinnum á ári. Ákveð hér með að hygla móður minni í hvert sinn sem eitthvert okkar systkinanna á afmæli en ekki systkinum mínum. Byrja samt ekki fyrr enn í mars...;)
En aftur að montinu í pabba. Ekki nóg með að hann vilji halda veislu í hvert sinn sem einhver útskrifast eða gerir eitthvað álíka sniðugt (Jón fékk sko líka veislu fyrir jól) heldur lét hann taka myndir af okkur sex sem erum með háskólapróf/stúdentspróf/sveinspróf um jólin og ætlar að senda þær í jólakortunum næst! Þannig að um næstu jól munu vinir og ættingjar fá myndir af litlu sætu menntuðu börnunum hans pabba síns. ,,Gvöð hvað þau hafa stækkað hugsa þeir, Gunna orðin 33 ára, Bjargey 29, Gunnhildur 27, Jón Guðlaugur 24, Lukka 22 og Jóhannes litli engillinn tvítugur og öll orðin svona menntuð. Duglegir krakkar". Væri kannski venjulegra að hafa þetta svona:,,Gvöð hvað þau hafa stækkað, Gunna orðin 13 ára, Bjargey 9 ára, Gunnhildur 7 ára, Jón Guðlaugur 4 ára, Lukka 2ja og Jóhannes litli engillinn að verða eins árs í febrúar og öll svona heilbrigð og fín. Duglegir krakkar". En við erum víst ennþá litlu börnin hans pabba okkar sem finnst ekkert skemmtilegra en að monta sig af börnunum sínum, eins og foreldrum er títt. Nema þeir tala flestir um þessa fjögurra ára eða þennan tveggja ára.
Þetta er samt alls ekkert pirrandi eða neikvætt á neinn hátt tel ég, amk ekki fyrir okkur, kannski fyrir ættingja okkar. Mér finnst þetta bara fyndið og gaman að gera pabba minn og mömmu ánægð. Væri ekkert gaman ef við hefðum engan metnað. En það er samt eitt sem vantar í þenna hóp. Það eru afkvæmi. Hin tvö sem ekki fengu að vera með á myndunum hafa það fram yfir okkur aulana að eiga fullt af börnum. Kannski verður það mynd í jólakortið 2006: Börnin sem eiga börn...! Þrátt fyrir að við séum vel menntuð og dugleg gleymir sá gamli ekki að minna okkur á að ,,við séum að verða barnlaus frameftir öllum aldri". Hún móðir mín var nefninlega orðin fimm barna móðir þegar hún var að verða 27 ára (ég verð 27 ára eftir 2 vikur), ég fæddist þá og jók enn álagið á henni. En þar sem ég var með ólíkindum skemmtilegt og bráðþroksa barn:) fór þetta ekki að verða alvarlegt fyrr en tæpum fjórum árum seinna þegar Jón Guðlaugur kom í heiminn. Þá fóru götin á hausnum og vesenið að byrja. Amma var amk fljót að hætta að hafa hann fyrir uppáhaldsdreng, þó hann sé skírður í höfuðið á henni og afa. He he. En hann er ljúfur drengur í dag. En núna erum við sem sagt orðin stór og ég er að fara í veislu heima í sveitinni til að fagna því að títtnefndur Jón Guðlaugur aka Nonni er orðinn smiður. Dulei drágurinn hans babba síns.

Skemmtileg pabbasaga í byrjun helgarinnar. Já og hann kallar okkur systurnar femínur. Finnst það gott orð yfir feminista - þarf ekki allt alltaf að vera í karlkyni. Honum finnst þetta samt vera óttaleg vitleysa í okkur.... Gamlir hundar eiga erfitt með að læra að sitja - og ótrúlegt sem það nú er þá eru hvolparnir ósköp lélegir við það líka!!!!!




6 Comments:

Blogger bergie said...

vá ég held bara að fáir séu fyndnari en þú hahahahaha ( nema þá kannski pabbi þinn enda hlýtur húmorinn að eiga sér rætur)

12:15 e.h.  
Blogger Gunnhildur said...

Takk fyrir það elskan mín. Ég er alveg sammála að ég sé fyndin en kannski ekki fyndnust... þú átt þína spretta líka, enda fyndinn pabbi á þínum bæ líka - og mamma þín klikka heldur ekki.

12:44 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

híhíhí, þetta er nú ekki andlaust eins og þú varst að kvarta undan, en þrælfyndið eins og þú ert nú reyndar yfirleitt.

sjáumst í gryfjunni, kv. Sóley

2:01 e.h.  
Blogger Gunnhildur said...

Það svífur yfir mann innblástur oft á föstudögum...

2:05 e.h.  
Blogger B said...

Ég veit ekki hvað þið eruð að reykja þarna á föstudögum sem veitir slíkan innblástur en endilega haltu því áfram......þrælskemmtilegt :)

Og ég sem hélt að foreldrar mínir væru slæmir í montinu. En ef foreldrar manns fá ánægju út úr því að monta sig af afkvæmum sínum hví ekki?

11:23 e.h.  
Blogger Gunnhildur said...

Auðvitað eiga foreldrar að monta sig af börnunum sínum - þó það nú væri. Reyndar var svo engin veisla, vont veður og engin treysti sér í sveitina:(

9:17 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home

Powered by Blogger