miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Hróflað við hugmyndum

Hugmyndir okkar um börn í stríðum eru þær að þau séu ávallt fórnarlömb. Þeim er rænt frá heimilum sínum eða finnast á vergangi og þau tekin og neydd til að læra á og nota vopn og drepa fólk. Þetta finnst mér vera eðlilegt. Börn drepa ekki sjálfviljug og velja ekki að fara í stríð. Þau myndu frekar vera heima hjá sér að leika sér, ef þau fengju að velja. Okkur finnst óþægilegt að hugsa til þess að barn velji það að fara í stríð og vilji drepa fólk. Ég vil trúa því að börn í stríðum séu fórnarlömb vondra uppreisnarmanna sem pína þau til að drepa og berjast.

Þess vegna leið mér illa í skólanum áðan þegar við vorum að ræða þessi mál út frá grein sem byggir á viðtölum við börn í Sierra Leone sem tóku þátt í borgarastríðinu þar á 10. áratugnum. Þessi börn völdu það mörg að taka þátt, þó þau hafi vissulega ekki haft neina góða kosti að velja um, þá völdu þau samt stríð frekar en til dæmis flótta og sum börnin völdu að fara ekki í stríð. Þau töluðu meira að segja um valdið sem vopnin veittu þeim og hefndina sem þau ætluðu að koma fram. Þau sögðust einnig hafa framtíðardrauma og stríðið virtist ekki hafa haft nein gífurleg áhrif á sálarlíf þeirra, hvað svo sem síðar varð...

En þetta lætur mig hugsa um fórnarlambahugmyndirnar.

Feministar verða alltaf brjálaðir/ar þegar sagt er að vændi sé ekki val heldur afleiðing aðstæðna, og ég hef alltaf litið þannig á málið. Það er þó fullt af fólki sem á erfitt líf, er í eiturlyfjum, hefur verið misnotað kynferðislega og líður almennt bölvanlega en er samt ekki í vændi. Það valdi að fara ekki í vændi. Það hafði val, þó valið hafi kannski verið á milli pestar og kóleru eins og sagt er - en val engu að síður.

Kannski er ég farin að hljóma eins og versta frjálshyggjutík en það er nú ekki meiningin að tala hérna um hamingjusömu hóruna. Enda held ég ennþá fast við þá skoðun mína að hún sé vandfundin nema kannski í bókinni 11 mínútur eftir Paulo Choelo - en það er líka skáldsaga.

En þetta er pæling - hefur einhver skoðun á þessu?

2 Comments:

Blogger Thora said...

Ég myndi segja að baranahermenn væru alltaf fórnarlömb, þar sem það er fullorðinna að segja nei þið egið ekki að taka þátt, nem hvað að víða í heiminum eru þeir sem vitið hafa ekki að velta þessu fyrir sér. Eitt aðal þema sumarbúða URKÍ árið 2004 voru börn í stríði og komu þangað aðilar frá nokkrum löndum sem þekktu þetta sjálfir, en þar kom helst í ljós að börnum var lofað fæði, klæði og húsnæði fyrir fjölskyldur sínar. Það eina sem barnið fékk voru eiturlyf sem olli því að það var brjálað. Þetta er saga margra.
En einnig vilja hermenn fá börn í stríð til þess að nota fremst í fylkingum, þegar börnin eru á eiturlyfjum þá eru þau algerlega brjáluð og þora öllu, svo þau hlaupa fram fremst og mynda í raun lyfandi skjöld fyrir þá sem á eftir koma.
Hvað varðar vændiskonur, þá erum við öll svo misjöfn í hugsun, svo þegar einn telur valið vera eins og þú nefnir með fólk sem hefur verið misnotað kynferðislega. Sumir leiðast út í vændi og aðrir ekki, þú talar um val, hjá sumum er valið að selja sig eða d-svelta, því þær sjá ekki aðra leið. Það er ógeðslegt að líkja þessu við sjálfsmorð, en þeir sem fermja sjálfsmorð þeir sjá ekki aðra útikomuleið. En einhvern annar í sömu stöðu myndi kanski sjá hana.
En fínn pistill, búin að bíða eftir nýjum lengi ;)

10:16 f.h.  
Blogger Gunnhildur said...

Já ég er alveg sammála þessu sem þú segir, aðstæðurnar gera það að verkum að þau fara í stríð. Heildarmyndin bíður ekki upp á marga aðra kosti og hvernig þau eru notuð. En varðandi valið, má velta því fyrir sér af hverju sum börnin fóru ekki í stríðið... Eins og Jónína setti þetta fram þá er verið að taka valdið af börnunum og skoðanir þeirra ekki teknar gildar ef þau eru aðeins álitin fórnarlömb. Gerendahæfi þeirra gert að engu.

Ég veit ekki - þetta er svo viðkvæmt mál að ég er ekki viss um að ég ætli að mynda mér skoðun á því.

11:44 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home

Powered by Blogger