fimmtudagur, mars 09, 2006

Álver

Ég fékk loksins blogginnblástur á leiðinni heim úr vinnunni áðan þegar síðdegisútvarpið var að tala við held ég Ragnhildi Sigurðardóttur um álver. Við vorum nefninlega að tala um þetta í gær vinkonurnar og hvað það vantar alltaf þetta annað sem ætti að koma í staðinn fyrir álver. Jú ferðaþjónustan kemur sterk inn en einhvern veginn er hún hætt að hljóta hljómgrunn því þeir sem tala um hana eru oft flokkaði í hóp með öllum hinum öfgasinnuðu náttúruverndarsinnunum, og allir vita nú hvaða sess þeir hafa í þessari umræðu. En þessi Ragnhildur kom með mjög góðan punkt. Ríkið er að borga eitthvað um 700 milljónir með hverju starfi í álveri, því það kostar jú mjög mikið að byggja álver, en á meðan er Marel að fara að flytja út 150 störf því það er miklu hagkvæmara fyrir þá heldur en að hafa þau hérna heima. Ef ríkið (sem virðist vera ótrúlega mikið í mun að halda störfum úti á landabyggðinni) myndi í staðinn styrkja Marel til að halda þessum störfum hérna og flytja þau jafnvel til Húsavíkur þá eru nú komin þó nokkur störf, og líklega frekar góð störf, og aukið val fyrir íbúa. Annað sem ég hef einnig oft hugsað um og það er öll þessi íslenska hönnun sem er made in china. 66° Norður er til dæmis með mikla fjöldframleiðslu á allskonar fatnaði og fleiri vörum en lætur framleiða þetta allt í útlöndum, Asíu eða Eystrasaltslöndunum, einnig Cintamani og fleiri fyrirtæki sem státa sig af hinni einstöku íslensku hönnun. Ef ríkinu væri svona rosalega í mun að fjölga störfum á landsbyggðinni væri það þá ekki að gera meira til að halda þessum fyrirtækjum hérna og flytja þau út á land, skiptir máli hvort þú hrærir í álpotti eða saumar flíspeysu? En af hverju gerir það það ekki? Ég held að það sé vegna þess að ríkinu er alveg sama um landsbyggðina, það er að hugsa um þjóðarframleiðsluna en ekki hvort Jón á Húsavík og Gunna á Reyðafirði eigi fyrir salti í grautinn. Því er skítsama - Álgerður er engin álfkona, hún er kaupsýslukona.
Ég held að þessi álversvæðing sem er að vaða yfir allt sé alls ekki sprottin út frá hjartagæsku og skilningi á átthagatryggð Íslendinga. Þetta snýst um peninga og ekki rassgat annað eins og allt. Alcoa græðir, Landsvirkjun græðir, ríkið græðir og þjóðarframleiðslan eykst, við komumst á lista yfir ríkustu þjóðir heims og verðum rosalega montin. Náttúran verður einn ruslahaugur og borgarmyndunin heldur áfram hvað sem hver segir. Eða ætlar ÞÚ að vinna í álverinu?

4 Comments:

Blogger B said...

Ég er nú varla hlutlaus í umræðunni um álver þannig ég ætla ekki að ræða þau.

Ég er ósammála þér varðandi hlutverk ríkisins í atvinnumálum. Ríkinu er í sjálfu sér ekki stætt að styrkja fyrirtæki beint að mínu mati.

Það gegnur ekki upp út frá samkeppnissjónarmiði. Ríkið á hins vegar að skapa hagstæðar aðstæður fyrir fyrirtækin í landinu t.d. með skattastefnu, verði á orku og atvinnuþróunarmálum.

Hvað varðar fyrirtæki eins og 66 norður þá eru það einungis gróðarsjónamið sem reka þau úr landi. Þau eru einfaldlega ekki tilbúin að greiða íslensk laun og nota því ódýrt vinnuafl í Asíu í staðinn. Eitthvað sem Ríkið getur ekkert gert í nema þú sért tilbúin að vinna á saumastofu fyrir 10 kr á tímann? Þá held ég nú að fleiri myndu vilja vinna í álveri.

6:24 f.h.  
Blogger Gunnhildur said...

Það er naumast þú er húsbóndahollur maður, getur ekki tekið afstöðu vegna hagsmunaárekstra.
En þú um það. Kannski er þetta ekki nægilega vel úthugsað hjá mér en mér finnst það samt skjóta skökku við að ríkið sé að borga svona gífurlega mikið með hverju starfi í álverinu (sem það er að gera) en getur ekki styrkt aðra framleiðslu. Sem myndi þá vilja vera á Íslandi því hún væri ekki að græða meira á því að vera annars staðar. Það eru náttúrulega allir að hugsa um gróða, og ef ríkið er að hugsa um landsbyggðina myndi það gera starfsmumhverfi minni fyrirtækja betra, en er ekki að því.
Blaaaahhhh vona að þú skiljir þetta:)

5:56 e.h.  
Blogger B said...

Hver sagði aldrei að ég gæti ekki tekið afstöðu, ég sagðist bara ekki ætla að ræða álver :)

En varðandi hversu háar fjárhæðir er verið að borga með hverju starfi í álverinu þá væri ég til í að vita hvaðan þú hefur þessar tölur. Ég sjálfur hef aldrei heyrt þessa tölu og væri til í að lesa um þetta nánar, gætir þú sagt mér hver heimildin er?

En jú ég skil þig alveg varðandi minni fyrirtækin og ég sagði það m.a. í fyrri athugasemdinni minni. Ríkið hefur ekki gert nóg að því að skapa góðar aðstæður í landinu fyrir smærri fyrirtæki, það er alveg rétt hjá þér.

4:58 e.h.  
Blogger Gunnhildur said...

Eins og ég sagði í pistlinum þá talaði þessi kona um þessar tölur, þetta eru upplýsingar sem ég heyrði hana segja í útvarpinu og slæmt er ef satt er!.

6:12 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home

Powered by Blogger