þriðjudagur, september 06, 2005

Gunnhildur án titils

Jæja loksins komin úr Landmannalaugum og í siðmenninguna. Aftur með mitt eigið svefnherbergi, sér eldhús, sér baðherbergi, salerni INNI í íbúðinni, sér sturta svo ég tali nú ekki um internetið almáttuga. Halelúja.
Hef samt ekki ennþá komið mér í stuð til að skrifa gott blogg, enda þarf maður nú aðeins að koma sér í gírinn fyrir svoleiðis allskonar. Ekki bara hægt að setjast niður og riðja út úr sér gargandi snilld eftir tveggja mánaða klósettþrif og fyllerí á fjöllum - þó klár sé kerlingin þá getur hún ekki allt. En hér er hún mætt...
En sögurnar út Laugunum eru líklega ekki rithæfar, kannski sumar, ég get alveg glatt ykkur með sögum af heimskum túristum sem ætla að labba Laugaveginn í gallabuxum og vindjakka með heila búslóð á bakinu. Ég gæti líka sagt ykkur frá fullum Íslendingum sem týna fötunum sínum og öskra um miðja nótt á skálaverðina að finna þau, eða kveikja bál á tjaldstæðinu af því þeir kunna ekki að nota einnota grill. En ef ég færi í svæsnari sögur eins og samskipti skálavarða á fjöllum þá erum við komin út í ótprenthæft efni og líklegt að undirrituð geti ekki borið ábyrgð á talsmáta sínum. Hún hefur því ákveðið að láta það liggja milli hluta - en ykkur er velkomið að kíkja í kaffi ef forvitnin er að gera útaf við ykkur - sem ég EEEfast ekki um. Spennandi spennandi.

Af því að ekki er hægt að skrifa neitt neikvætt um aðra á netinu, því það er víst dónaskapur, þá ætla ég bara að tala um sjálfa mig og lífgæðakapphlaupið. Enn á ný hef ég hafið kapphlaupið mikla um gæði lífsins. Ég fór í IKEA í dag og keypti mér ýmsa nytsamlega og ónytsamlega hluti til heimilisins. Það gefur mér ákveðna lífsfyllingu að kaupa inn til heimilisins því þá get ég reynt að afsanna þá kenningu mína að ég sé í hæsta máta vonlaus húsmóðir. Ég hef það nefninlega á tilfinningunni að húsmóðirin leynist þarna innst inni. Ekki að ég kunni ekki að elda og allt það, sú húsmóðir hefur alltaf verið til staðar og ég vitað vel af henni - ég borða amk alveg minn mat og minn maður einnig. En dúlluhúsmóðirn hefur eitthvað látið á sér standa. Að gera flott og huggulegt í kringum mig hefur nefninlega ekki verið sterkasta hlið persónuleika míns hingað til. Ég hef það ekki einu sinni í mér að stela hugmyndum frá öðrum því annar galli á gjöf Njarðar er sá að ég er haldin miðstigs tískumótþróa. Ég vil ekki hafa heimilið mitt eins og klippt út úr Hús og Híbýli eða Habitat og IKEA bæklingum. Svo vil ég heldur ekki hafa neitt eins og hjá vinkonum mínum og svo þurfa myndirnar líka að vera akkurat á réttum stað á veggjunum og borðstofuborðið þarf að vera nákæmlega það RÉTTA þannig að á endanum gerist EKKI NEITT. Ég drap samt odd af oflæti mínu í dag og keypti tvo ramma í IKEA sem mig hefur dauðlangað í í ár eða meira. En vegna áðurnefnds tískumótþróa hef ég ekki haft það í mér að kaupa þá, þeir eru nefninlega mjög vinsælir rammarnir. En batnandi konu er best að lifa - það er ekki hægt að vera alltaf spes - ekki á Íslandi þar sem er bara ein lágvöruverslun með húsbúnaði sem ber hið ódauðlega nafn IKEA.

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Welcome back my darling:)
Ég kíki á þig næst þegar ég á leið suður og heyri sögur af fjöllum;)

11:53 e.h.  
Blogger Gunnhildur said...

Takk fyrir, ágætt að vera kominn í blogggírinn aftur. Endilega kíktu í heimsókn, gellan er atvinnulaus eins og er þannig að... nægur tími.. he he

12:34 f.h.  
Blogger B said...

IKEA er nú ekki svo ódýr þú ættir að prófa í Rúmfatalagernum.

Ekki er nú mikið um fólk í tískulögguleik þar því það er víst svo dæmalaust ósmekklegt að versla í Rúmfatalagernum hefur maður heyrt.

10:29 f.h.  
Blogger Thora said...

Hlakka til ad kikja i kaffi eftir 3 vikur :)
En him. sogur ur laugunum, hehehe fegin ad thaer eru ekki blogg haefar :)
Knus Thora

1:36 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home

Powered by Blogger