þriðjudagur, mars 14, 2006

Helvítis tjellingarnar...

Muniði eftir því í gamla daga þegar konur voru að fara út á almenna vinnumarkaðinn? Þegar karlar náðu ekki upp í nef sér af hneykslun yfir að konurnar ætluðu að svíkja landið og eiginmennina, börnin og pottana og yfirgefa heimilið. Alþingismenn töluðu um blómið konuna og neituðu að veita konum læknaleyfi á þeim forsendum að þær gætu ekki riðið ár og vötn, hríðarbyli og storma í læknavitjanir. Mogginn upphaf hina heilögu móðir og húsfreyju sem uppalanda næstu kynslóðar og umræður um yfirburði karlmannsins sem skynsemisveru voru í hávegum hafðar.

Talið er að þetta hafi haft gífuleg áhrif á jafnréttisbaráttuna til hins verra. Jafnvel að þetta hafi verið gert af yfirlögðu ráði til að halda konum niðri og tryggja stöðu karlmanna í þjóðfélaginu, og hefur það að vissu leyti tekist - en sem betur fer ekki að öllu.

Samsvörun í nútímanum, sem er tilgangur þessara skrifa, eru viðbrögð danskra fjölmiðla við útrás nokkurra Íslendinga (helvítis tjellinganna) í Danmörku og víða. Svo virðist sem Danir séu markvisst að halda Íslendingum niðri, að níða þá og tortryggja til þess eins að tryggja sína eigin stöðu og koma í veg fyrir frekari áhrif íslenskra viðskiptamanna í Danmörku? Fjölmiðlar hafa enga trú á þeim, telja að þetta sé bóla sem eigi eftir að springa fljótlega, gera grín að þeim en hræðast þá kannski undir niðri. Taktík sem hefur virkað og mun líklega alltaf virka þó auðmennirnir segjist hvergi hræddir og muni halda ótrauðir áfram. Núna eru þessi minnihlutahópur, íslenskir auðmenn í sömu stöðu og konur hafa verið í svo öldum skipti, það er ekki tekið mark á því sem þeir hafa fram að færa, þeir eru tortryggðir, aðrir taldir betri til verksins o.s.frv.

Ég hef því komist að þeirri niðurstöðu að það væri ráð að senda alla karlmenn í útrás til Danmerkur, þá myndu þeir kannski fatta hvernig það er að vera kona!

fimmtudagur, mars 09, 2006

Álver

Ég fékk loksins blogginnblástur á leiðinni heim úr vinnunni áðan þegar síðdegisútvarpið var að tala við held ég Ragnhildi Sigurðardóttur um álver. Við vorum nefninlega að tala um þetta í gær vinkonurnar og hvað það vantar alltaf þetta annað sem ætti að koma í staðinn fyrir álver. Jú ferðaþjónustan kemur sterk inn en einhvern veginn er hún hætt að hljóta hljómgrunn því þeir sem tala um hana eru oft flokkaði í hóp með öllum hinum öfgasinnuðu náttúruverndarsinnunum, og allir vita nú hvaða sess þeir hafa í þessari umræðu. En þessi Ragnhildur kom með mjög góðan punkt. Ríkið er að borga eitthvað um 700 milljónir með hverju starfi í álveri, því það kostar jú mjög mikið að byggja álver, en á meðan er Marel að fara að flytja út 150 störf því það er miklu hagkvæmara fyrir þá heldur en að hafa þau hérna heima. Ef ríkið (sem virðist vera ótrúlega mikið í mun að halda störfum úti á landabyggðinni) myndi í staðinn styrkja Marel til að halda þessum störfum hérna og flytja þau jafnvel til Húsavíkur þá eru nú komin þó nokkur störf, og líklega frekar góð störf, og aukið val fyrir íbúa. Annað sem ég hef einnig oft hugsað um og það er öll þessi íslenska hönnun sem er made in china. 66° Norður er til dæmis með mikla fjöldframleiðslu á allskonar fatnaði og fleiri vörum en lætur framleiða þetta allt í útlöndum, Asíu eða Eystrasaltslöndunum, einnig Cintamani og fleiri fyrirtæki sem státa sig af hinni einstöku íslensku hönnun. Ef ríkinu væri svona rosalega í mun að fjölga störfum á landsbyggðinni væri það þá ekki að gera meira til að halda þessum fyrirtækjum hérna og flytja þau út á land, skiptir máli hvort þú hrærir í álpotti eða saumar flíspeysu? En af hverju gerir það það ekki? Ég held að það sé vegna þess að ríkinu er alveg sama um landsbyggðina, það er að hugsa um þjóðarframleiðsluna en ekki hvort Jón á Húsavík og Gunna á Reyðafirði eigi fyrir salti í grautinn. Því er skítsama - Álgerður er engin álfkona, hún er kaupsýslukona.
Ég held að þessi álversvæðing sem er að vaða yfir allt sé alls ekki sprottin út frá hjartagæsku og skilningi á átthagatryggð Íslendinga. Þetta snýst um peninga og ekki rassgat annað eins og allt. Alcoa græðir, Landsvirkjun græðir, ríkið græðir og þjóðarframleiðslan eykst, við komumst á lista yfir ríkustu þjóðir heims og verðum rosalega montin. Náttúran verður einn ruslahaugur og borgarmyndunin heldur áfram hvað sem hver segir. Eða ætlar ÞÚ að vinna í álverinu?

Powered by Blogger