föstudagur, september 30, 2005

taparinn tapar

Ég verð að fara að hlaupa hraðar mar... allar þessar vinkonur mínar eru að hlaupa framúr mér í lífsgæðakapphlaupinu. Allar komnar á STÓRA jeppa, eins og það sé eitthvað kúl, eða komnar með börn í mallann (eins og ÞAÐ sé kúl thíhíhí), eða ja bara að taka framúr mér. Ég lenti nú alltaf í öðru eða þriðja sæti í víðavangshlaupi í skólanum í gamla daga, náði aldrei því fyrsta, (en varð heldur aldrei neðar en þriðja, bara taka það fram...) þannig að ég ætla að rústa þessu hlaupi. Maður verður að vera góður í einhverju. Hvernig er þetta? Í sama mánuðinum er ég búin að kaupa mér borðstofusett, leðurstígvél, gallabuxur, nokkra boli og peysur, rúmteppi, fullt af römmum og skipulagsdóti úr IKEA, geðveikt flotta kápu, lopa í lopapeysu - ó guð þetta er svoooo mikið að ég bara man ekki meira... Svo er ég að fara til útlanda eftir viku að versla meira og er atvinnulaus. Rústa ég þeim ekki???? Nei ekki nema að ég hefði afkastað þessu öllu plús það að vera að vinna 10-12 tíma á dag, ætti Stóran jeppa, fellihýsi og sumarbústað, ætti nokkra krakkaorma og væri ógó sæt. Ég fæ alltof mörg mínusstig fyrir að vera atvinnulaus. Kona í alvöru lífsægðakapphlaupi er brjálæðislega vel menntuð, á þrjú börn, er í geðveikri vinnu og vinnur mikið, er samt alltaf sætust og í flottasta tauinu en hefur samt tíma fyrir allt annað eins og líkamsrækt, kynlíf og félagslíf. Ég er eiginlega bara að skíttapa þessu. En what the hell??? Ég fæ mér bara sjerrí og leggst upp í sófa og horfi á Juding Amy sjá um þetta allt fyrir mig...

fimmtudagur, september 22, 2005

Klukkiklukk

Gaman fyrir egóista eins og mig að verða klukkuð - þá er fólk beinlínis að biðja mig um að skrifa um sjálfa mig. Gaman að því, takk Stína mín!

En hérna koma einhverjar staðreyndir: (Er reyndar ekki búin að ákveða hvað ég á að skrifa akkúrat núna en það hlýtur að koma)

Humm - sjáum hvað kemur...

1. Það er stóra bróður mínum honum Úlla að þakka að ég er feministi. Þegar hann, sem var óhemju latur ungur maður, uppskar hrós í maaaaarga mánuði fyrir að elda litla mínútusteik af nýslátruðu nauti fattaði ég, þá 14 ára minnir mig, að það er ekki það sama að vera strákur og stelpa. (Þetta var samt ekki afbrýðisemi, heldur opnuðust þarna augu mín fyrir ójafnvæginu milli kynjanna).

2. Ég tala mikið og mikið um sjálfa mig - en vona og held að ég geti líka hlustað.

3. Ég er örugglega hressasti þunglyndissjúklingur sem ég þekki!!!

4. Þegar ég var lítil vildi ég vera strákur, það var eitthvað voða flott við það - kannski var það vegna þess að strákar voru meira metnir en stelpur. Í dag vildi ég alls ekki vera karl og er stolt og ánægð með að vera kona, þrátt fyrir að gildismat þjóðfélagsins hafi breyst lítið.

5. Ég bauð vinkonum mínum í heimsókn í gær til að HORFA á nýja borðstofuborðið mitt, fattaði ekki að bjóða þeim að BORÐA á nýja borðinu!!! Segir held ég mikið um húsmóðurina í mér, hún er gífurlega snjöll, er ekki að koma sér í óþarfa streð... eða fattlaus kjáni...


Veit nú ekki hversu mikið þetta segir um mig, það er nú svo sem margt annað sem maður gæti sagt en það kemst ekki allt fyrir í fimm atriðum og svo setur maður ekki allt á netið...;)

En nú á ég að klukka fólk, humm Lára Kraftakerling, Herdís Elín, Guðrún bumbukona, Þóra og Þórdís Sif þið eruð klukkaðar stúlkur mínar.

þriðjudagur, september 20, 2005

Ýkjusögur úr sveitinni

Er komin heim til mín aftur eftir - ja spes helgi í sveitinni. Þrátt fyrir að vera alin upp í sveit og hef svo sem talið mig vera meiri sveitakellingu en margur, fékk ég hálfgert menningarsjokk um helgina. Já svei mér þá! Ég fór í leitir - en ekki til að smala, nei ég fór sem ráðskona undir STYRKRI stjórn móður minnar sem var að fara í sínar fimmtándu leitir sem ráðskona. Ég dvaldi alla helgina í leitarkofanum við Hítarhólm og smurði nesti handa leitarmönnum og hrærði í kjötsúpupotti. Við mamma vöknuðum klukkan 05:30 báða morgnanna og elduðum hafragraut í liðið og lögðum á borð. Ekki beint minn uppáhaldstími. En nóg um það, að menningarsjokkinu: Karlamenning get ég sagt ykkur. Þvílíka karlamenningu hef ég sjaldan upplifað, en hef ég þó tvisar sinnum komið til Tyrklands!!!! Í leitinum er ekki aðalmálið að leita að fé, ó nei, í leitinum er aðalmálið að vera sem fyllstur í sem lengstan tíma, röfla sem mest og vera KALLAlegur. Já, já maður þarf að vera mikill svona kall - ,, aaa má ekki bjóða þér sjússs aaaa, ummm rop , helvíti gott maður". Í leitinni voru 24 leitarmenn og af þeim voru 4 konur, eða stelpur. Tuttugu karlar, allt vaðandi í pungsvitafýlu og brennivínslykt, hrotum og hetjusögum, táfýlu og hafragraut og kjötsúpu. Þarna gildir enginn aumingjaskapur, þarna eru menn fullir frá því klukkan fimm á föstudegi fram á mánudagskvöld þegar búið er að reka heim úr réttinni. Það er farið með vískípelann með sér á fjöllin, og kannski tvo bjóra í hnakktöskuna til öryggis. Svo er fengið sér slurk þegar komið er tilbaka og fleiri til eftir kjötsúpuna. Vakað fram eftir nóttu, vaknað klukkan sex og fengið sér sopa sem er kannski skilað út við vegg með hafragrautnum, lagt af stað aftur og aftur tekinn með viskípeli og einn bjór til. Komið tilbaka - safnið rekið niður í rétt og þar hitta hetjurnar konurnar sínar og börnin smá, uppgefnar eftir drykkju og svefnleysi - en endurnærðar á sálinn eftir góða útiveru á fegursta afrétti landsins??? Svo er sungið og fengið sér annan sopa og áfram fram á aðfangadag - þá verður líklega allt komið í hús og eiginkonurnar geta andað léttar og karlapungarnir látið renna af sér!!!!

miðvikudagur, september 14, 2005

Heimavinnandi húsmóðir

Að vera heimavinnandi húsmóðir er ekkert að gera mig neitt voðalega gráhærða. Ég er ekkert að ærast yfir því að geta skrifað blogg klukkan eitt um nóttu vitandi það að ég þarf ekki að vakna fyrr en mér sýnist sjálfri í fyrramálið. Mér finnst heldur ekkert hræðilegt að vita til þess að þegar ég vakna, ef ég ákveð að gera það, get ég fengið mér að borða, kannski lesið blaðið, horft út í loftið og kannski skriðið bara aftur upp í rúm. Ef ég á að segja alveg eins og er þér er þetta bara hið ljúfasta líf. Ekkert stress að mæta vinnuna og koma þreytt og lúin heim um fimm. Nei nú er það bara heima er best, kíkt kannski í búðir og svona - gefið litlum háskólakrökkum hádegismat og bara haft það næs. Já held að ég mæli bara með því að allir prófi að vera heimavinnandi húsmæður öðru hvoru. Það er fyrirtakslíf.

En svooooo er það hins vegar annað mál! Stelpan getur ekki verið heimavinnandi húsmóðir endalaust, bæði peningalega séð, þó ég hafi nú verið séð og náð mér í fjallmyndarlegan og undurblíðan mann sem í þokkabót skaffar vel, get ég samt ekki setið auðum höndum. Kvenréttindakona eins og ég get ekki verið heimavinnandi húsmóðir - sérstaklega ekki þegar ég er ekki einu sinni MÓÐIR! (Látum það vera þó ég verði það seinna í fullri vinnu sem móðir Páls Páls míns en ekki núna).
Ég verð að finna mér vinnu. Ég verð að finna mér vinnu vegna þess að A: Ég þarf á peningum að halda. B: Ég þarf að koma mér áfram á þessum blessaða vinnumarkaði. C: Ég eyði alltof miklu þegar ég er heimavinnandi húsmóðir. D: Öllum finnst að ég eigi að fá mér vinnu. (léleg afsökun - eða hvað???) E: Ég stend mig ekki nógu vel sem heimavinnandi húsmóðir og er í rauninni bara atvinnulaus...

þriðjudagur, september 06, 2005

Gunnhildur án titils

Jæja loksins komin úr Landmannalaugum og í siðmenninguna. Aftur með mitt eigið svefnherbergi, sér eldhús, sér baðherbergi, salerni INNI í íbúðinni, sér sturta svo ég tali nú ekki um internetið almáttuga. Halelúja.
Hef samt ekki ennþá komið mér í stuð til að skrifa gott blogg, enda þarf maður nú aðeins að koma sér í gírinn fyrir svoleiðis allskonar. Ekki bara hægt að setjast niður og riðja út úr sér gargandi snilld eftir tveggja mánaða klósettþrif og fyllerí á fjöllum - þó klár sé kerlingin þá getur hún ekki allt. En hér er hún mætt...
En sögurnar út Laugunum eru líklega ekki rithæfar, kannski sumar, ég get alveg glatt ykkur með sögum af heimskum túristum sem ætla að labba Laugaveginn í gallabuxum og vindjakka með heila búslóð á bakinu. Ég gæti líka sagt ykkur frá fullum Íslendingum sem týna fötunum sínum og öskra um miðja nótt á skálaverðina að finna þau, eða kveikja bál á tjaldstæðinu af því þeir kunna ekki að nota einnota grill. En ef ég færi í svæsnari sögur eins og samskipti skálavarða á fjöllum þá erum við komin út í ótprenthæft efni og líklegt að undirrituð geti ekki borið ábyrgð á talsmáta sínum. Hún hefur því ákveðið að láta það liggja milli hluta - en ykkur er velkomið að kíkja í kaffi ef forvitnin er að gera útaf við ykkur - sem ég EEEfast ekki um. Spennandi spennandi.

Af því að ekki er hægt að skrifa neitt neikvætt um aðra á netinu, því það er víst dónaskapur, þá ætla ég bara að tala um sjálfa mig og lífgæðakapphlaupið. Enn á ný hef ég hafið kapphlaupið mikla um gæði lífsins. Ég fór í IKEA í dag og keypti mér ýmsa nytsamlega og ónytsamlega hluti til heimilisins. Það gefur mér ákveðna lífsfyllingu að kaupa inn til heimilisins því þá get ég reynt að afsanna þá kenningu mína að ég sé í hæsta máta vonlaus húsmóðir. Ég hef það nefninlega á tilfinningunni að húsmóðirin leynist þarna innst inni. Ekki að ég kunni ekki að elda og allt það, sú húsmóðir hefur alltaf verið til staðar og ég vitað vel af henni - ég borða amk alveg minn mat og minn maður einnig. En dúlluhúsmóðirn hefur eitthvað látið á sér standa. Að gera flott og huggulegt í kringum mig hefur nefninlega ekki verið sterkasta hlið persónuleika míns hingað til. Ég hef það ekki einu sinni í mér að stela hugmyndum frá öðrum því annar galli á gjöf Njarðar er sá að ég er haldin miðstigs tískumótþróa. Ég vil ekki hafa heimilið mitt eins og klippt út úr Hús og Híbýli eða Habitat og IKEA bæklingum. Svo vil ég heldur ekki hafa neitt eins og hjá vinkonum mínum og svo þurfa myndirnar líka að vera akkurat á réttum stað á veggjunum og borðstofuborðið þarf að vera nákæmlega það RÉTTA þannig að á endanum gerist EKKI NEITT. Ég drap samt odd af oflæti mínu í dag og keypti tvo ramma í IKEA sem mig hefur dauðlangað í í ár eða meira. En vegna áðurnefnds tískumótþróa hef ég ekki haft það í mér að kaupa þá, þeir eru nefninlega mjög vinsælir rammarnir. En batnandi konu er best að lifa - það er ekki hægt að vera alltaf spes - ekki á Íslandi þar sem er bara ein lágvöruverslun með húsbúnaði sem ber hið ódauðlega nafn IKEA.

Powered by Blogger