föstudagur, maí 20, 2005

Júróvisionkynhlutverkapælingar

Fólk eitthvað orðið ósátt við bloggleysið. Bæti hér með úr því enda margt sem brennur á mér í dag. Hönnun var kosin fyrirtæki ársins af VR félögum í gær. Til hamingju með það! (Ég er ekki í VR - humm).
Við töpuðum í júróvision - anskotans Balkansskagagengi he he. Nei nei auðvitað er þetta engum öðrum að kenna en okkur sjálfum, við verðum bara að gera betur næst. Það þýðir ekkert að kenna öðrum þjóðum um að við getum ekki sigrað. Mottóið á líka að vera með en ekki að vinna. Við verðum bara að koma með almennilegt og áberandi flott atriði næst ef við ætlum að vinna. Lítil þjóð eins og við verður bara að vera best ef hún ætlar að fanga athyglina. Eins og hún Tocara í ANTM, hún hefði þurft að vera lang best ef hún ætlaði að vinna, af því hún er plus size eins og það er kallað. Svona er þetta bara - þýðir ekkert að væla yfir að Austur Evrópubúar kjósi hvorn annan, sumir segja meira að segja að það ætti að skipta þessu í tvennt, austur og vestur!! Halló talandi um fordóma - eða ég veit ekki hvað þetta er?? Mér finnst við bara ekkert hafa átt skilið að vinna þetta þó þetta hafi verið flott hjá gellunum. Alltof týbískt eitthvað. Vantaði líka axlahreyfingarnar sem eru í myndbandinu.

En nóg um júróvision, ætla bara að sleppa því að kommenta á búninginn, hver veit nema maður verði komin í svona buxur eftir mánuð - tískan er áhrifameiri en maður gerir sér grein fyrir.

Ég er upp í Landmannalaugar 13. júní. Úff ég kvíði smá fyrir því. Skrítið að vera föst þarna á sama staðnum í allt sumar. En það verður vonandi gaman. Hlakka amk til að hætta hérna. Fékk samt rosastórt verkefni um álversstaðarval. Ég ákvað samt að halda mig við ákvörðunina mína og hætta, ætla ekki byggja framtíð mína hérna á einu verkefni. Held það fresti bara vandamálinu um nokkra mánuði. Starfsmannastjórinn sagði líka við mig að þetta væri rétt ákvörðun hjá mér og að ég ætti alltaf greiðan aðgang hingað inn aftur. Núna eru allir að segja mér hvað ég sé æðisleg og góður starfskraftur. Aðeins of seint í rassinn gripið, en samt gott að heyra það - vissi það svo sem alveg áður...:)

Fór að hugsa um þessi kven og karlahlutverk um helgina (Já og líklega oftar skilst mér). Litlu frændur mínir fjórir, synir systkina minna létu Gunnu systur raka sig sköllótta (..og Palli líka). Þeir eru voða sætir og miklir gæjar þannig. Litla frænkan, sú yngsta í hópnum vildi líka vera "sköllóttu" eins og hún orðaði það. Hún er þriggja ára og með hár svona rétt niður fyrir eyru. Mamma hennar neitaði því ekkert en Gunna klippikona vildi ekki raka hana og flestir voru sammála henni. Ég skil það alveg og mamma hennar sagði að hún myndi hvort eð er örugglega fara að gráta á eftir. Sú litla skildi hins vegar ekkert af hverju hún mátti ekki láta raka sig sköllótta sem er ekki skrítið því eina ástæðan fyrir því er sú að hún er stelpa. Strákarnir mega vera eins og þeim sýnist en hún á að vera fín og flott með sitt síða fína hár. Svo er verið að tala um að kynhlutverkin mótist ekki af umhverfinu. Bullshit! Risastór þátt af því hvernig við hugsum er vegna skilaboða sem við fáum frá fólkinu í kringum okkur. Auðvitað á þetta eftir að segja henni að hún eigi ekki að gera hvað sem er fyrir útlitið og að það skipti meira máli en að hafa þægilega klippingu yfir sumarið. Hún má ekki - hún er stelpa. Stelpur eiga að vera penar og fínar, strákar mega vera eins og þeim sýnist. En því miður er það líka að breytast. Meiri kröfur er farið að gera til stráka og karla um útlitið. Kannski heldur fólk að jafnrétti felist í því, mér finnst nú að þróunin ætti að vera í hina áttina. Að útlitið skiptir ekki meginmáli, hvort sem maður er karl eða kona.

En svona er þetta líf, eilíf vonbrigði. Nei segi svona ég er ekkert grátandi yfir þessu;)

Heyrumst skvísur og gæjar og munið að vera sæt, falleg og í góðu formi - þá kemur hamingjan ósjálfrátt... ví ha!

þriðjudagur, maí 10, 2005

Víha!

Haldiði að stelpan sé ekki búin að fá vinnu sem skálavörður í Landmannalaugum í sumar!?
Gott að þekkja stelpu sem þekkir mann:)

Prinsessur ,,láta" berja sig????

Þær eru margar skrítnar rannsóknirnar sem gerðar eru. Niðurstöðurnar ekki síður.

mánudagur, maí 09, 2005

Reunion

Við vinkonurnar vorum að ræða um reunion, eða bekkjarmót eins og það kallast á góðri íslensku, því ein stendur í því að skipuleggja svoleiðis. Við fórum að ræða það hvað fólk virðist oft falla í gamla farið og öll gömlu hlutverkin koma aftur um leið og bekkurinn hittist. Lúðarnir verða aftur lúðar, gellurnar verða aftur gellur, stríðnispúkarnir verða aftur stríðnispúkar o.s.frv. Í grunnskóla gekk allt út á vinsældir og flokkadrætti. Klíkur mynduðust og fólk hópaði sig saman eftir áhugamálum og já líka eftir útliti!!! Amerísku unglingamyndirnar hafa oft margt til síns máls þó þær séu ýktar. Flestir vilja komast út úr þessum hlutverkum sem þeim var skipað í 6 ára bekk, af sjálfum sér og öðrum, og hafa þroskast á jákvæðan hátt. Þeir vilja kynnast þeim sem þeir ekki þekktu þá, eða ekki þekkja þá sem voru bestu vinirnir á þessum tíma. En auðvitað eru einhverjir sem vilja lifa á fornri frægðarsól grunnskólaáranna. Það er svo sem í góðu lagi. Eftir þessar umræður og pælingar, haldiði að ég hafi ekki fengið sent boðsbréf um reunion úr öðrum grunnskólanum mínum. Árgangarnir 78, 79 og 80 ætla að hittast, grilla og hafa gaman. Það er bara frábært og ekkert að því. En það sem ég hef út á þetta að setja er það að stofnuð var heimsíða bekkjamótsins og þar á maður að kjósa sætustu og skemmtilegustu stelpuna og sætasta og skemmtilegasta strákinn, hvern maður telur að mesta hafi orðið úr????, hver manni hafi þótt hverfa???? (skil ekki alveg) og svo á maður að segja hver var leiðinlegasti kennarinn og eitthvað þannig. Mér finnst þetta óskaplega asnalegt og skil ekki alveg tilganginn hjá 25-27 ára gömlu fólki að kjósa fallegasta fólkið og so on. Nóg er um að fólk hafi orðið að þola að vera lúði allann sinn grunnskóla svo þarf að koma með eitthvað svona líka þar sem fullt af fólki á engan sjens í að vinna. Eða æi þið skiljið, þetta er bara bjánalegt og algerlega út úr kú. Jafn heimskulegt og fegurðarsamkeppnir.
Vona að hætt verði við þessa asnalegu kosningu og fólk geti hist þarna á jafnréttisgrundvelli og haft gaman án þess að vera með einhvern meting. Það er svo leiðinlegt að hafa svoleiðis.
Tek það fram að ég skrifaði skipuleggjurunum bréf, er ekki bara að nöldra yfir þessu hérna en segi ekki neitt beint við þær...

föstudagur, maí 06, 2005

Íslenskar druslur

Íslenskar konur er svo miklar druslur, þær eru jafnvel byrjaðar að sofa hjá 15 ára gamlar. Eða bíddu nú við, þær eru ekki druslur þó þær séu byrjaðar að sofa hjá 15 ára! Eða eru þær byrjaðar að sofa hjá 15 ára? Hverjum erum þær að sofa hjá? Ken og Actionman, hvorri annarri? Eða kannski 15 ára karlkyns druslum? Eða útlendingum? Já þær hljóta að vera að sofa hjá útlendingum því íslenskir karlmenn eru ekki druslur! Þeir sofa ekki hjá fyrr en þeir eru giftir! Það er bara konurnar sem eru lauslátar. Ekki samt allar en þær lauslátu koma óorði á hinar velgirtu! Bölvaðar druslur eru þetta! En hvað með útlensku karlanna? Eru úlenskir karlmenn druslur? Það hlýtur að vera. Þessar bölvuðu íslensku druslur eru að sofa hjá útlenskum hermönnum og sjóliðum í tonnavís á meðan hinir íslensku hreinu sveinar sitja í festum og bíða eftir brúðkaupinu. Það er ekki fyrr en þá sem þeir gefa sveindóminn eftir til druslanna! En hver vill giftast druslu? Enginn íslenskur karlmaður. Hverjum ætla þeir þá að giftast ef allar þessar íslensku eru svona lausgirtar? Þessum tveimur sem biðu eftir hjónabandinu? Það er varla nóg til af hreinum meyjum fyrir alla þessa hreinu sveina! Hvað gerum við þá???

Já þetta er heljarinnar vandamál. Eins gott að Svanhildur fór til Opruh, hún sagði allri Ameríku hvað við erum lauslátar (eða að margra mati) þannig að hreinu meyjar Ameríku get flygst hingað til að giftast hrein sveinunum íslensku. Já þetta er flókið mál.

En að alvöru málsins þá finnst mér ekkert í tali Svanhildar segja að við séum lauslátar. Hún er einfaldlega að svara spurningum Opruh um kynlíf því Oprah vildi fá að vita um kynlíf. Og hvað er slæmt við það að stunda kynlíf utan hjónabands (þ.e. one night stand ef maður er einhleypur) og að það sé ekki tiltökumál á Íslandi að vera einstæð móðir??? Svanhildur sagði ekkert um lauslæti okkar, eða ég get ekki séð það, og af hverju er orðið ,,lauslæti" alltaf notað yfir bólfarir íselnskra kvenna. Þær eru fjandakornið ekki að sofa hjá hvorri annarri endalaust, nema sumar hverjar, þannig að karlmennirnir hljóta einnig að vera ,,lauslátir". Og hvað með það??? Hverjum líður illa yfir samförum ókunnugs fólks??? Hvað með það þó fólk fari heim með einhverjum af djamminu og hvað með það þó að sá hin/hinn sami/sama hafi ekki aftur samband?? Hverjum kemur þetta við í alvöru talað??? Og HVAÐ með það þó að íslenskar konur sofi hjá útlenskum mönnum??? Sú umræða finnst mér eiginlega vera heimskulegust af þeim öllum!!! Er eitthvað sem segir í lögum að við eigum að geyma okkur fyrir ískensku strákana??? Erum við að svíkja íslensku karlmennina ef við sofum hjá útlenskum manni??? Af hverju gerir það okkur að druslum??? Hvað heyrir maður oft umræðun um stelpurnar sem flykkjast niður á höfn með brækurnar á hælunum þegar ítalskt skip leggur að landi?? Alltof oft og hvað með það þó satt sé??? Mega þessar stelpur ekki ná sér í spennandi hjásvæfur ef þeim sýnist svo??? Ef þær eru einhleypar eru þær þá að svíkja hvern???? Helming íslensku þjóðarinnar sem ,,gæti" mögulega hafa fengið á broddinn hjá þeim ef þessir Ítalir hefðu ekki komið til landsins?
Bjánaskapur, við erum frjálsar konur, ráðum yfir okkar líkama og sál eftir 18 ára aldur og megum sofa hjá þeim sem við viljum, þegar við viljum, hvar sem við viljum!!! Sambúð/sambönd og hjónaband er svo allt annar handleggur, enda snýst þessi umræða ekki um giftu/lofuðu konurnar. Hún snýst um ungar, einhleypar, sjálfstæðar konur sem eiga samkvæmt siðareglum afturhaldsins að haga sér eins og nunnur þangað til einhverjum íslenskum ofurlúða sýnist annað. Skamm skamm!

LIFI FRJÁLSAR ÁSTIR - ÁFRAM STELPUR - SOFIÐ HJÁ ÞEIM SEM YKKUR SÝNIST!!!

mánudagur, maí 02, 2005

Mánudagur

Á meðan ég bíð eftir því að Herra Húsmóðir sæki mig í vinnuna ætla ég að blogga aðeins. Er ekki til neitt íslenskt orð yfir blogg? Mörður og félagar hljóta að vera búnir að finna eitthvað gott og gilt.

En að öðru. Er þreytt eftir helgina. Maður á að nota helgina til að hvíla sig en í staðinn er maður djammandi eins og vitleysingur langt fram á nótt. Alveg til hálf eitt á laugardagskvöldið. Þá þurfti ég að fara heim að leggja mig. Herra Húsmóðir kom með mér, hann varð ekkert glaður yfir húsmóðurtöktum mínum þegar ég hreinsaði ælufötuna í eldhúsvaskinn. Enda gera almennilegar húsmæður ekki slíkt. Skil hins vegar ekkert hvaðan þessi æla kom!
Gærdagurinn var líka svolítið erfiðu, á það til að geta ekki sofið almennilega daginn eftir drykkerí, þannig að ég var alveg eins og undin gólftuska í allan gærdag. Sofnaði samt aðeins í sófanum hennar Lukku, í afmælisveislunni hennar. Enda engin ástæða til að halda sér vakandi yfir dýrindis súkkulaðikökunni sem var öll í klessu eftir skell á eldhúsgólfið. Betty virðist geta klikkað!

Okkur systrunum tókst að semja vísu handa Odda afmælisbarni. Hún myndi trúlega flokkast sem leirburður af heldri vísnaskáldum þjóðarinnar en á okkar mælikvarða er hún stórgóð. Viljiði heyra:

Skrítinn og sköllóttur er hann
skvísuna á höndum sér ber´ann
Fyrir henni hann sér
þá fullnægð hún er
Því alvöru karlmaður er hann.

Glæsilegt ekki satt?
Jebb Herra Húsmóðirn komin á sjerísosinu okkar.
later stelpur (hehe)

Powered by Blogger