mánudagur, janúar 31, 2005

Long time no blogg

Best að sýna dyggum lesendum virðingu og blogga svolítið. Þýðir ekki að vera með skrifstíflu endlaust. Verst samt að hún er eiginlega ennþá. Hélt samt að ég væri orðin rosa frjó og hugrökk í morgun, var í mega góðu skapi og til í allt. Fékk svo smá kvíðamagapínu þegar ég kom í vinnuna og feisaði raunveruleikann. Tókst samt á við hann blessaðan og nú er bara að vera bjartsýn og jákvæð. Hver er minnar gæfusmiður ef það er ekki hún ég? Ætli það sé ekki bara ég.

Við fórum í sumar/vetrarbústað í Biskubstungunum skötuhjúin um helgina. Rok og rigning allan tímann en það var bara fínt. Lágum bara og átum og sváfum og lásum góðar bækur. Vorum orðin svo stirð eftir leti helgarinnar á sunnudaginn að við skelltum okkur í gönguferð við hverina við Geysi og svo í sund í Reykholti. Tókst þar að ná úr okkur sleninu. Föttuðum bæði hvað það er skrítið að vera með mikið hár á óvenjulegum stöðum í sundi, ég á leggjunum og hann á kinnunum. Dregur úr sundkraftinum. Ég segi nú bara eins gott að það voru ekki einhverjar tískulöggur á staðnum. Hefði ekki þorað ofaní þá með mína fögru fótleggi.

Eftir sundið vorum við orðin sársvöng þannig að stefnan var tekin á næsta kaffihús. Það var hins vegar vandfundið því allt er lokað í uppsveitum Árnessýslu í janúar - sérstaklega á sunnudögum - þannig að við enduðum á Kaffi krús á Selfossi. Þar fengum við ömurlega þjónustu og borguðum alltof mikið:( Skamm skamm. Svo fórum við bara heim og í kvöldmat til tengdó og fengum svartfugl, hann var bara góður. Ég kann samt ekki alveg á svona villibráðarbragð. Veit ekki alveg hvað er gott og hvað vont. Held að þetta hafi verið gott, eins og allt sem tengdamóðir mín eldar.

En þetta er leiðinlegt blogg og ekkert fyndið þannig að ég er bara hætt og vona eins og þið að ég verði komin í stuð næst þegar ég skrifa. bæ bæ

föstudagur, janúar 21, 2005

Þorrablót Hönnunar

Þá er helgin byrjuð - búin með fyrsta pilsnerinn (ódýrt að vera ég) og komin í fíling. Lagði að vísu ekki í brennivínsstaupið af ótta við að velta út um allt og verða mér til skammar. Lét hákarlinn líka eiga sig - langar ekki að anga eins og úldin hákarl! dö.
Þetta var voða skemmtilegt hádegisþorrablót með öllu tilheyrandi, skrítnast var að það var graflax í forrétt. Svo kom voða sætt par, svona 10-12 ára og dansaði samkvæmisdansa fyrir okkur. Þau voru algerar dúllur. Finnst að allir strákar eigi að læra að dansa, og náttúrulega stelpurnar svo strákarnir hafi einhverjar að dansa við.
Svo kusum við stelpurnar (í frekar ólýðræðislegri kosningu, svona til að koma í veg fyrir óæskilegar uppljóstranir um áhuga okkar á hinu kyninu hérna) kynþokkafyllsta karlinn - en vorum þá búnar að gefa þeim öllum rós. Við erum voðalega sætar í okkur. En allir hinir karlarnir eru voðalega sárir samt að hafa ekki verið valdir. Þeir jafna sig þó vonandi fljótlega þegar þeir koma heim í faðm eiginkvenna sinna sem bíða þeirra með blóm og silkiboxers.

Hlakka til að fara í partý í kvöld
Góða helgi gott fólk

Til hamingju með bóndadaginn kæru bændur!

Vonandi hafið þið það allir gott í dag og fáið eitthvað rómantíkst frá spúsum ykkar - eða hvorum öðrum.

En að öðru: Ég gleymdi töskunni minni heima í morgun - lagði hana frá mér á leiðinni út og fattaði það ekki fyrr en ég var komin í vinnuna. En min bror er heima og fann hana fyrir mig. Síminn minn er í henni þannig að ef þið þurfið að ná í mig hringið bara í vinnuna mína. (Maður er náttlea svo ómissandi að heimurinn þarf að vita af þessu).

Annars er gott að það er föstudagur, fullt að gerast. Partý í kvöld, barnaafmæli á morgun og svo annað partý um kvöldið. Hálsbólgan samt eitthvað að stríða mér ennþá þannig að ég verð nú ekki með nein læti... mæti amk ekki í mínipilsi, bandaskóm og magabol. En sjáum til...

mánudagur, janúar 17, 2005

Það búa ekki allir svo vel...

að eiga afmæli á STEINSTEYPUDAGINN. Ó nei en það hef ég gert. Árið 2001 var 16. febrúar hinn eini sanni STEINSTEYPUDAGUR - mér til heiðurs að sjálfsögðu!
Er komin í vinnuna aftur eftir fimm daga sófalegu og videogláp í hálsbólgu og hausverkjarveikindum. Er samt ekkert orðin almennilega hress ennþá en fannst ég samt þurfa að hunskast í vinnuna. Svo liggur bara lotusinn okkar niðri og ég get ekkert sent þá pósta sem ég þarf að senda og so on. Hefði alveg getað legið heima og vorkennt mér áfram... var líka að byrja á nýrri bók þannig að rúmið myndi alveg virka fyrir mig núna, plús það að það er sætur strákur í því, og það gerist ekki svo oft - amk ekki nógu oft og á morgun verður hann farinn frá mér einu sinni enn uhu ég á svo bágt. (já já ég veit ekki eins bágt og allir sem lentu í flóðinu en samt bágt...á minn mælikvarða).

Hef ekkert meira að segja í bili nema uhu uhu langar upp í rúm.

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Nöldrarinn mikli!

Ég þori varla að blogga meira - ég hrindi örugglega öllum vinum mínum frá mér bráðum. En elsku vinir mínir ekki vera fúlir út í mig þó ég sé ,,öfgafullur feministi". Það böggar mig örugglega mest af öllum - þó það böggi ykkur eitthvað líka of á tíðum amk. Ég veit að það er hundleiðinlegt að hlusta á fólk röfla sí og æ um skoðanir sínar, en einmitt þess vegna fékk ég mér þetta blogg. Svo ég geti bara skrifað það sem mér liggur á hjarta hérna inn og ekki talað eins mikið um þetta við ykkur. En það er samt gaman að fá komment og umræður hérna inni - frjálst að taka þátt og ennþá frjálsara að sleppa því einfaldlega að lesa nöldrið í kellingunni!


þriðjudagur, janúar 11, 2005

Vinir mínir í Hollywood

Ég er ekkert búin að blogga um skilnað Brad og Jennifer. About time!
En hvað skal segja. Alltaf leiðinlegt þegar fólk skilur - og ef ég á að vera alveg hreinskilin, þá finnst mér Brad bara standa sig illa. Þó hann sé alger foli þá er Jennifer súperstjarna og alger gella. Ég stend með henni - hvort sem þið trúið því eður ei! Ég stend hins vegar ekki alveg eins mikið með nýju unnustunni hans Jude Law - hún þarf að sanna sig aðeins meira til að ég taki hana fram yfir hann. Enda þekki ég hana ekki eins vel og hann;)


mánudagur, janúar 10, 2005

Feministaþrugl endalaust!

Ég er hætt að vera feministi - feministar eru öfgafullar, reiðar og ljótar kellingar sem láta allt fara í taugarnar á sér. Þær nota kolvitlausar aðferðir við að koma skilaboðum sínum á framfæri sem fá fólk einungis til að taka ekki mark á þeim. Þær rífa kjaft yfir öllum sköpuðum hlutum, s.s. eins og að konur skuli hafa lægri laun en karlar, að (sumir nb) karlar kaupi konur og börn, að (sumir nb) karlar nauðgi, að konur séu taldar með húsinu, bílnum, hundinum og viskíinu, að starfsheitið ,,forstjóri" skuli vera einkastarfsheiti karla, að kona skuli vera kölluð drusla ef hún sefur hjá fleirum en tveimur, að barneignir eru ekki metnar að verðleikum heldur hafa þær skapað konunni veikari stöðu en karla, með vel útilátinni hjálp frá karlpeningnum o.fl.o.fl.

Svona gæti ég haldið endlaust áfram um bjánaleg mál sem úrilli feministar láta stuða sig dag eftir dag, ár eftir ár, öld eftir öld, þúsöld eftir þúsöld... endalaus þolinmæði... og enginn árangur nema kannski kosningaréttur, jafnrétti til menntunar, erfðaréttur, réttur á að vinna fyrir sér við hvað sem hver kýs, að það sé bannað að nauðga, fóstureyðingar, getnaðarvarnir, orðið brúðKAUP hefur aðra og betri merkingu víðast hvar, sjálfstætt val, leikskólar, opinber samkynhneigð, o.fl.ofl. en dísús, þetta eru bara smámál sem hefðu bara komið með tímanum. Til hvers að standa í þessu þrögli endlaust þegar hlutirnir gerast bara af sjálfum sér.

Þess vegna er best að hætta bara að vera feministi (sem er by the way í karlkyni) og bíða bara róleg og yfirveguð, vel gift og sátt við sitt, eftir því að hlutirnir gerist bara...

Varhugaverður spegill

,,Kona hringdi til lögreglunnar í Reykjavík í gærkvöldi til að tilkynna um varhugaverðan spegil á kvennasalerni á skemmtistað í miðborginni. Hafði konan komist að því að hægt væri að horfa í gegnum spegilinn, aftanfrá.
Að sögn lögreglu snýr bak speglisins inn að karlaklósetti og sagði konan að þar væri vörður sem varnaði því að aðrir en karlar gætu komist inn á klósettið og séð hvers kyns var. Karlarnir gætu fylgst með því sem væri að gerast á kvennaklósettinu. Óskaði konan eftir því að lögregla rannsakaði málið."

Þessi grein birtist á mbl.is í dag!

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Viðvörun frá lögreglu og karlaathvarfinu

Lögreglan vill hvetja alla karlmenn, einkum þá sem stunda næturlíf,
ráðstefnur, jólahlaðborð og knæpur, til að vera vel á verði og afar varkára
þegar kvenfólk býður upp á drykk.
Komið er á markaðinn stórhættulegt efni, svonenfdur "bjór" og er fjöldi
kvenna farinn að nota efnið til þess að herja á menn sem eiga sér einskis
ills von.
Venjulega er efnið í fljótandi formi og fæst nú næstum hvar sem er. Það er
til á flöskum, dósum, úr krana og jafnvel í stórum kútum.
Kvensniftirnar nota "bjór" í samkvæmum og á börum til þess að véla karlkyns
fórnarlömb heim með sér og í bólið. Venjulega nægir konunni að fá
karlmanninn til að innbyrða nokkrar einingar "bjórs" og bjóða honum síðan
heim til kynlífs án nokkurra skuldbindinga. Þessar aðfarir duga til þess að
gera karlmenn gersamlega bjargarlausa.
Eftir neyslu margra "bjóra" kemur iðulega fyrir að menn falla í þá freistni
að stunda kynlíf með kvenfólki sem þeir að öllu jöfnu myndu aldrei líta á.
Að lokinni "bjórdrykkju" vakna karlmenn oft án þess að muna glöggt hvað
gerðist nákvæmlega kvöldið áður, gjarna þó með sterkt hugboð um að eitthvað
slæmt hafi átt sér stað.
Stundum kemur það fyrir að þessir ólánsmenn eru dregnir inn í þekkta
svikamyllu sem kallast "samband." Vitað er um tilfelli þar sem kvenfólki
hefur tekist að hneppa karlmenn í langvarandi og alvarlega útgáfu þrældóms,
refsinga og niðurlægingar sem kallast "hjónaband".
Að því er virðist eru karlmenn líklegri til að verða fórnarlömb þessarar
svikamyllu eftir að kvenmaðurinn er búinn er að neyða í þá "bjór" og lofa
kynlífi.
Vinsamlegast sendið þessa aðvörun til allra karlmanna sem þið þekkið.
Ef þið eruð þegar fórnarlömb þessa hræðilega nýja efnis, "bjórs", og
kvenþrjótanna sem beita því er rétt að benda á sérstaka stuðningshópa
karlmanna sem búið er að koma á fót á flestum þéttbýlisstöðum, en í þessum
hópum má ræða sín vandamál á opinskáan og ærlegan hátt við karla sem margir
hverjir hafa lent í þessum hremmingum.
Finna má þessa stuðningshópa í símaskrá víðast hvar undir heitinu
Golfklúbbur.

Tek það fram að ég samdi þetta ekki!

Skokkarar

Það eru skokkóðir skokkarar að skokka um allt.

mánudagur, janúar 03, 2005

Komnir tenglar

Tókst að koma inn tenglum með hjálp alla leið frá Ástralíu. Takk fyrir hjálpina Bogi!

Powered by Blogger