þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Fyrst ég er byrjuð

er eins gott að halda bara áfram.

Er ekki spurningin um að skrifa um Latabæ? Ég hef hatað Latabæ síðan ég horfði á leikútgáfuna af Glanna og Latabæ í flugvél á leiðinni til Íslands fyrir nokkrum árum. Mér fannst fólkið í Latabæ vitlaust og áhrifagjarnt með engar sjálfstæðar skoðanir. Íþróttaálfurinn hafði betur í að vinna bæjarbúa (sem voru bara börn og bæjarstjóri) yfir á sitt band af því að hann var snjallari en klaufinn Glanni glæpur. Ekki af því að hann hafði eitthvað betra til málanna að leggja. Þannig að hversu góður sem boðskapurinn var, sem Íþróttaálfurinn hafði fram að færa, kom það ekki fram í leikritinu. Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að þetta er illa skrifað frekar en að boðskapurinn sem slíkur sé slæmur. Svo er það aftur annað mál hvort börn eigi að vera sífellt upptekin af því sem þau borða. Ættu foreldrarnir ekki að vera uppteknir af því sem börnin borða, þeir kaupa jú í matinn! Og er ekki nóg að nánast allar konur og margir karlar þjáist af krónísku samviskubiti yfir að borða? Það liggur við að ég sé komin með samviskubit yfir að fá ekki samviskubit yfir að borða, svo mikið er samviskubitið. Ég veit um strák sem tók 50 armbeygjur eftir að hafa borðað snakkpoka með fjölskyldunni á nammidegi, hann var 9 ára, og um afmælispartý sem endaði í gulrótarpakka því enginn vildi missa latabæjarstig eða hvurn fjandinn sem það var.

En hvað veit ég, ég er bara barnlaust grey sem ekkert veit um heiminn, eða þannig, hefur maðurinn aldrei heyrt minnst á brjóstaþoku????

mánudagur, nóvember 27, 2006

Heimspekilegar vangaveltur

Það getur ekki verið svona andskoti erfitt að halda úti einu bloggi, bölvuð leti þetta í konunni, og djöfull blótar hún mikið!

En Afríka Afríka Afríka!

Hún er kona var okkur sagt, hún fæddi mannkynið!

Við erum komin heim, lífsreyndari, brúnni og feitari en áður. Hungursneyðin í Afríku nær ekki til hvítra Íslendinga sem drekka bjór og rauðvín í öll mál en þykjast samt hafa samúð með svöngu börnunum. Jú þeir hafa það, en breytir okkar lífsmáti þeirra ástandi? Eða eigum við að lifa meinlætalífi af því að aðrir svelta? Eða eigum við að sleppa því að hugsa um þetta, er hungursneyð ekki bara auglýsingatrix hjálparstofnanna sem þurfa að hamra á eymdinni ef þær ætla að halda lífi? Erum við ekki bara hræsnarar að þykjast vera samúðarfull og komum svo við á Strikinu á leiðinni heim til að kaupa okkur nýjustutískugallabuxurnar? Eða erum við ennþá meiri hræsnarar að þykjast yfir tískuna hafin af því að við höfum farið til Afríku og séð eymd og hungur með eigin augum? Ég veit það ekki, enda er þetta flókið og ég sé ekki fram á að ég fái nokkur svör við þessum spurningum mínum. Námið gerir þetta ekki auðveldara því þar er velt upp öllum hugsanlegum sjónarhornum á þróunarmál og þróunarstarf sem hugsast getur en afstaðan er engin. Hvernig á ráðavillt þróunarfræðistúdína að geta tekið afstöðu með eða á móti þróunaraðstoð þegar hún heyrir nýja hliðar daglega? Eða er þetta ekki spurningin um að taka afstöðu, er ekki bara málið að halda sínu striki, læra vel, fá góðar einkunnir og sjá til hvort mér takist að "láta gott af mér leiða" í framtíðinni?

Sjálfhverf tilvistarkreppa á hæsta stigi?

Gæti verið!

"Hvað er þróun?" (e.development) gæti verið nafn á ritgerð sem ég er ekki byrjuð á. Mögulega mastersritgerð, ef tilvistarkreppan gengur ekki af mér dauðri eins og kreppur eiga til að fara með fólk. Sjáum hvert þessi spurning leiðir mig! Kannski á slóðir Hannesar Hólmsteins - þróunaraðstoð er bull!

Veit ekki, held samt ekki.

Þangað til næst... þá skrifa ég um lausn mína á alheimstímaflakksþyngdarleysisatómum.

Powered by Blogger