laugardagur, janúar 28, 2006

Loksins krakkar mínir

Ég er komin með vinnu! Til hamingju ég! Var einhver að halda því fram að ég væri iðjuleysingi? Vinnan mín er hjá Reykjavíkurakademíunni sem er ógeðslega kúl samfélag sérvitra fræðimanna, eins og framkvæmdastjórinn orðaði það. Ég byrja 1. febrúar og hlakka bara svolítið til. Ég veit hins vegar ekki alveg hvað starfið mitt heitir ennþá, ég er ekki búin að fá titil en ég sé um daglegan rekstur og skrifstofuna. Þetta er 50% starf sem er mjög gott þar sem ég er í skóla líka en samt er ég að hugsa um að fá mér aðra vinnu og er eiginlega komin með hana líka. Hún er á kvöldin en ég veit ekki alveg hvað ég geri.
En núna ætti ég að vera að læra en ekki blogga þannig að ég segi bless, vildi bara láta ykkur vita svo þið farið ekki að halda ég mér sé ekki viðbjargandi og ég ætli bara að lifa á kallinum mínum það sem eftir er ævinnar.

föstudagur, janúar 27, 2006

Skíðahommarnir komnir heim.

Bloggletinginn ætlar að reyna að endurnýja bloggið sitt enn á ný og halda sig við það, ég er alltaf að hugsa upp eitthvað sniðugt að skrifa þegar ég er að fara að sofa á kvöldin en sjaldnast ratar það á tölvuskjáinn.

Helst í fréttum er að við Palli skruppum til Þýskalands og Austurríkis í viku, komum heim í gær. Skelltum okkur á skíði og ég get sagt ykkur að ég kom sjálfri mér á óvart. Þegar ég var lítil (ennþá minni) gat ég ekki með nokkru móti haldið jafnvægi á skíðum, ekki staðið í halla, ekki stoppað, ekki beygt og alls ekki rennt mér. Enda voru skíðin sem ég prófaði yfirleitt tvöföld mín lengd og ekki með nokkru móti hægt að hafa stjórn á þeim. Í dag hins vegar eru komin á markaðinn svökölluð carving skíði (held þau heiti þetta) og eru þau þeim frábæra eiginleika gædd að vera styttri en ég og þar af leiðandi mun viðráðanlegri en gömlu yfir tveggja metra löngu Varmalandsskíðin. Ég gat sem sagt haldið jafnvægi og rennt mér smá og haldið jafnvægi svona meirihluta dagsins. En ég segi nú ekki að ég sé á leið á Ólympíuleikana, þarf aðeins að auka hugrekkið og ást á adrenalíni. Er alveg laus við jaðarsportsáhugann. Hef alltaf verið óskaplegur gikkur í öllu svona hættulegu. Það kemur hins vegar vonandi með æfingunni og betri stjórn á skíðunum.
En Austurríki er ótrúlega fallegt land, fjöllin rosalega há og snjórinn helst kyrr á sínum stað, fýkur ekki bara í skafla og á bílrúður eins og á Íslandi.

Jæja en nóg í bili, þetta er alla vega byrjunin, vonandi verð ég duglegri að skrifa á næstu dögum. En núna er það raunveruleikinn sem tekur við, lærdómur og atvinnuviðtöl vonandi (krossa fingur), Palli farinn austur á Kárasmjúka og fullt af þvotti sem þarf að þvo. Nóg að gera.

Myndir í lokin af skíðagúrúunum miklu:


Ég og Árni vinur hans Palla sem dró okkur í skíðaferð með fjórtán tíma fyrirvara, eða voru þeir fimmtán??? Þetta er eina myndin af mér á skíðunum fyrir utan video sem ég ætla ekkert að sýna, þar lít ég út fyrir að vera miklu lélegri en ég var. En er ég ekki pró?

Humm er að reyna að setja inn fleiri myndir en það virðist ekki ganga í bili. Reyni síðar.


miðvikudagur, janúar 04, 2006

Gleðilegt ár rassgöt

Hæ ég er mætt aftur í bloggheima!
Búin að skrá mig í Háskólann aftur - vííí ég hlakka til og er komin með fótaóeirð af spenningi, eða einhverju öðru.
Orðin hundleið á því að leita að hinni fullkomnu vinnu, hún er ekki til - að minnsta kosti ekki í bili.
Hélt áramótapartý og matarboð fyrir tengdafjölskyldu mína næstum eins og hún leggur sig. Það lukkaðist einkar vel hjá mér (he hemm okkur afsakið, en hef samt ákveðið að njóta heiðursins ein).
Ég er búin að lesa Harry Potter og er að hugsa um að byrja á fyrstu bókinni aftur og lesa þær allar í röð - af hverju veit ég ekki.
Er að fara upp í sveit í kvöld, eða vestur á Mýrar eða uppeftir eins og var sagt hérna í gamla daga en núorðið virðist maður hættur að nenna að útskýra hvar Mýrarnar og Staðarhraun eru þannig að maður notar bara hið forheimskandi orðatiltæki ,,upp í sveit" eins og hver annar kaupstaðakrakki.
Í ,,sveitinni" ætlar húsmóðirin að verða viðstödd Álfabrennu á þrettándanum og fara í eina svokallaða fjölskylduboðið í minni fjölskyldu á eftir. Þar ætla ég að sjá öll litlu börnin sem ég hef ekki ennþá séð nema fyrir tilstilli nútímatækni sem kallast barnaland.is. Guðsgjöf fyrir fólk sem er lélegt við að treysta fjölskylduböndin.

Í lok þessa pistils ætla ég að gera annál fyrir síðasta ár sem samkvæmt mínum útreikningum var ekki það besta í tæplega 28 ára sögu minni.
Janúar - maí: Vann á Hönnun í óendanlega leiðinlegri ekki vinnu. Þ.e. hafði nákvæmlega ekki neitt að gera. Saknaði Palla og uppgötvaði að ég gæti verið hressari með lífið.
Júní - ágúst: Var upp í Landmannalaugum sem var í sjálfu sér ágætt. Drakk bjór og dúlís, saknaði Palla og reifst við yfirskálavörðinn.
September - desember: Atvinnulaus að leita að frama á vinnumarkaðnum. Saknaði Palla og fann ekki vinnuna góðu. Eldaði mat handa litlu systkinum mínum sem voru svo góð að heimsækja mig næstum á hverjum degi, reyndar í þeim ógöfuga tilgangi að fá að borða hjá mér - en mér var alveg sama, mér finnst svo gaman að sjá þau.
Jólin: Ákvað að fara aftur í skóla þegar ég fattaði að ég gæti verið búin með heila önn af mastersnáminu. Nöldraði í Palla sem ég er búin að sakna allt árið. Svo komu áramót og ég vandist því að hafa karlmann á heimilinu og er svona nokkurn veginn hætt að nöldra í honum enda stóðum við okkur bæði eins og hetjur í eldhúsinu fyrir matarboðið mikla, kannski hann fái líka smá heiður, en batnandi konu er best að lifa og næsta ár verður ekki neitt kjaftæði.
Áramótaheitið mitt er sem sagt að eyða ekki öðru ári í rugl!

Takk samt fyrir það, það var alveg ágætt á köflum - reyndar líka alveg hræðilegt stundum. Þannig að þetta ár, 2006, verður súperdúper ár. Man nefninlega eftir því að þegar við vorum að skála árið 2005 inn á nýársdagskvöld vissi ég að það yrði ekki gott. Við þessi áramót hafði ég aðra tilfinningu, sem sagt góða og ég ætla að treysta á hana!

Með bjartsýni í huga kveð ég að sinni og reyni að verða fyrr á ferðinni næst.
Áramóta kveðja
Gunnhildur í uppsveiflu:)

Powered by Blogger