þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Er sem sagt komin í vinnu hérna í rvk á minni ,,gömlu" góðu hönnun. Er mjög sátt við flutninginn og fékk heila helgi með mínum vonandi tilvonandi:) Erum því bæði glöð með það. Er hins vegar skítstressuð yfir þessari vinnu en hugga mig við þá staðreynd að fyrstu dagarnir eru ávallt erfiðastir og geri þess vegna fastlega ráð fyrir því að þetta verði auðveldara þegar lengra líður á vikuna. Er samt ekki enn komin inn í umhverfissviðið, er ekki alveg laus undan oki stórkostulegustu framkvæmda Íslandssögunnar. Þurfti að gera smá skýrslu í tilefni af ást minni á þeim. Lifði það af ! Enda mér svo sem engin vorkunn í því. Maður má ekki endalaust vera að nöldra.

Svo er bara dunderí á eftir, er að fá mömmu og systur mínar í mat, nema eina. Mamma og Lukka eru í bænum að kaupa eitt stykki sófa fyrir yngstu heimasætuna svo hún og óli ovur geta kúrað saman í nýju íbúðinni sinni á skaganum. Þau eru svoddan kúrudýr bæði. Ég ætla að vera góð við þær og gefa þeim að borða að hætti íslenskra húsmæðra - enda ekki þekkt fyrir annað en gífurlega hæfileika á því sviði...

Eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir er ég frekar ópólitísk eins og er. Það er engin sérstök ástæða fyrir því, hef bara svo lítið horft á fréttirnar undanfarið. Sá þær nú samt í gær, Davíð minn klikkar nú aldrei. Eða litla dýrið þarna í framsókn! Halló hver er þetta og hvað er hann gamall? Ég myndi ekki einu sinni líta við honum á bar sökum aldurs - en hann getur sett lög á mig, damm!!!
Djísús hvað þetta er kreisí, ég er sammála Stefáni Jóni, það ætti að setja aldurstakmörk á þingið. Amk fyrir stráka! (mú ha ha)

mánudagur, nóvember 22, 2004

Barnapíukvöld

Jæja þá lætur maður loksins heyra í sér. Þetta er ekki leti eða neitt, ég bara er í svo litlu netsambandi þarna fyrir austan. Alltaf þegar maður kemst á skrifstofuna þá er það yfirleitt eitthvað vinnutengt og ekki hægt að hanga neitt á netinu.

En ég er í bænum núna, kom á laugardaginn og fer líklega (?) aftur á föstudaginn, daginn eftir að Palli kemur heim í frí. Frábært mál, við fáum eitt kvöld saman heima í kotinu, svo aftur 8. og 9. desember held ég, og höfum ekki verið saman í fríi síðan fyrir þremur vikum. Ekki það að ég sé eitthvað að kvarta...:(

Í kvöld er ég barnapía! Get sagt ykkur að ég hef ekki passað krakka formlega síðan ég bara man ekki hvenær, líklega þegar Jónsi Gunnsi 7 ára frændi minn var pínuponsurófa og öskraði allann tímann. Jú þegar Tumi öskraði sem mest, það eru 4 ár síðan. Hef samt alveg umgengist frændsystkini mín helling, það hefur samt bara verið svona engin sérstakur að passa þau, þau hafa bara verið hjá afa sín og ömmu og allir svona saman. Ég eiginlega kann þetta ekki. En snúllan sem ég er að passa heitir Ísabella Ronja og er satt að segja alger sykurpúði. Hún brosir bara endalaust og sýnir manni tennurnar sínar 6 og er algert rófurassgat. Fór reyndar aðeins að væla áðan því hún vildi ekki fara að sofa, en núna er hún sofnuð með pelann sinn eins og lítill engill. Voða væmni allt í einu í manni!

Ég á eitthvað erfitt með að blogga núna, það er eitthvað svo mikið sem ég þarf að segja en samt ekki neitt þannig að þetta kemur út á sléttu. Ég á erfitt með að fá ,,útrás" hérna eins og er. Kemur kannski seinna þegar þörfin fyrir útrásina verður meira almenns eðlis. Bæ í bili...


föstudagur, nóvember 05, 2004

Antifeministar

Var að kíkja á spjallvef feministafélagsins. Þar fara fram bæði málefnalegar og ómálefnalegar umræður, blandaðar með tilfinningum og fordómum. Nokkrir strákar hafa haft fyrir því að fá sér aðgangsorð, lesa eitthvað, eða alls ekki neitt og drulla svo yfir feminista. Þeir kalla þá tussur og druslur og ofstækisfólk og fleira í þeim dúr. Ég skil ekki hvað þeir eru að pæla. Af hverju eru þeir að lesa þetta ef þeim finnst feministar vera tussur upp til hópa? Ekki nenni ég að lesa vef sjálfstæðisflokksins eða tikin.is (Finnst reyndar sjálfstæðismenn alls engar tussur). Allar spurningarnar (þær fáu sem komu fram) frá antifeministunum voru á þessa leið: hvað myndir þú segja yfir því að sjá hálfnakinn karlmann, löðrandi i svita framan á blaði? HA hvað myndir þú segja þá?! Eða: Finnst ykkur kennarahóran vera fórnarlamb? HA? Hún var að gera þetta sjálfviljug! HA! Segir kannski mest um þá sjálfa, geta greinilega ekki lesið milli línanna eða lesið dagblöð með gagnrýnu hugarfari. Þetta er eitthvað svo óþolandi, að allof margar umræðurnar inn á þessum vef ganga út á það að svara einhverjum bjánum sem hafa ekki hundsvit á feminisma og hvað þá þjóðfélagsmálum yfir höfuð. Halda bara að konur hati karla og vilji ekkert nema VÖLD!!!!

En sem betur fer eru fæstir strákar svona - flestir eru gáfaðari en þetta. En ég hvet fólk endilega til að kíkja inn á feministinn.is, set link þegar ég er orðin klárari í undraveröld bloggheimsins;)fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Í lok vinnudags

Kaffibollinn virkaði ágætlega en er hætt í dag. Er bara að notfæra mér aðstöðuna, þ.e. að komast á netið.
Skrifstofustýran varð leið þegar ég sagði henni að ég yrði bara á morgun og síðan ekki söguna meir. Gaman að því - gott að vera eftirsóttur starfsmaður.

Á eftir að segja takk takk fyrir komuna í gær Kúbupæjur, leitt að þið komust ekki allar (og náttla öll).

Andleysið herjar á höfuðið en samt langar mig svo til að skrifa eitthvað. Ég nenni samt ekki að nöldra meira yfir þessu síðasta, læt það bíða þar til seinna, sjáum hvernig fer. Ég get þá í staðinn nöldrað yfir úrstlitum kosninganna í BNA. Ég vil nú ekki útlista helming Bandaríkjamanna hálfvita og bjána. Þetta er bara alið svona upp. Skrítið að Bush skuli hafa svona sterk ítök þar sem minnst tenging við umheiminn er, en svo á Manhattan, þar sem hefur verið gerð hryðjuverkaárás, nýtur hann mjög takmarkaðs stuðnings. Samt er hann vitlaus í að losna við ógnina. Kannski fólkið þar fatti hvað hann fer vitlaust að kallinn. Svo segir Halldór forsætisráðherra vor að Bush eigi örugglega eftir að bjarga málunum í Ísrael og Palestínu. Ég bara skil ekki alveg hvað hann er að meina - átökin hófust aftur eftir að hann tók við og hann hefur haft næstum 4 ár til að gera eitthvað. Ætli Dóri lifi í einhverjum öðrum heimi en við hin. Ég skil bara ekki hvað fær hann til að virkilega halda þetta, eða hvernig hann sér að það eigi eftir að koma sér vel að halda þessu fram. Það trúir þessu enginn heilvita maður, og örugglega ekki aðrir framsóknarmenn ???

Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að hafa þetta fyrir svona pólitískan vef eða segja hvað ég hef verið að gera. Ég held samt að ég ætli að blanda því saman. Er það ekki best og eðlilegast? Ekki að ég hafi neitt að segja ykkur frá mér eins og er. Það er ekkert eins og ég vil hafa það eins og er þannig að ég kvarta bara endalaust... Ætti kannski að fara í þemavinnu með sjálfa mig og sjá jákvæðu hliðarnar við allan skapaðan hlut. Nei það væri svo út úr karakter ekki satt:)

En nú ætla ég að skoppa heim í kotið mitt.
Chao

Ég er gjörsamlega að sofna z z z z. Langar ekki til að vera hérna z z z z z.
Hef þess vegna ekkert að segja því ég hef enga orku í að skrifa. Fékk mér kaffibolla og vona að hann eigi eftir að gera kraftaverk svo ég þrauki þessa tvo tíma sem eftir eru. Gaman að því.

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Kynjabundið misrétti

Ég held að í augnablikinu sé ég ,,fórnarlamb" kynjabundins misréttis. Ég sit á skrifstofu verkfræðistofunnar sem ég vinn á og þýði cv frá öðru fólki yfir á íslensku. Ekkert að því, nema vegna þess að ég er ekki ráðin sem ritari hjá fyrirtækinu heldur landfræðingur, við jarðvegsrannsóknir. Vinnufélagar mínir í því verkefni eru enn sem komið er allir strákar og það hefur aldrei neinn minnst á eða komið með þá uppástungu að setja þá í það sem ég er að gera. Ástæðan fyrir því að ég er ekki að vinna mína venjulegu vinnu er sú að við erum að breyta vöktunum þannig að eitt okkar þurfti að koma seinna og annað hvort vera í launalausu fríi í viku, eða gera ,,eitthvað" á skrifstofunni í viku og hver er betur fallin til þess að vera launalaus eða vinna á skrifstofunni í viku en einmitt stelpan í hópnum! Verkefnastjórinn sagði reyndar við mig að ég hefði fengið val um hvort ég vildi vera eða fara austur, en það val fékk ég ekki fyrr en ég benti honum á að það gæti kannski hentað öðrum að byrja seinn fyrir austan. Hans fyrsta hugdetta var ég. Annað er að breyting á vöktunum hentar mér alls ekki og ég var búin að gera ráð fyrir því að geta unnið eins og Palli - þ.e. fengið frí sömu daga og hann. Það hentar hins vegar strákunum ekki og þess vegna þarf ég að gera eins og þeir vilja. Ég verð sem sagt næst í fríi með kærastanum mínum 21. nóvember. Sem er eftir 19 daga. Ég vil auðvitað fá þau laun sem ég er að fá og vil vinna mikið en ég er nú samt ekkert viss um að ég sé tilbúin að fórna ástarlífinum og heimilislífinu fyrir þetta. En það er náttúrulega ekki viðurkenndur hugsunarháttur í þjóðfélagi karlmennsku og peningahyggju að vilja rækta ástina!

Ég veit ekki - kannski tek ég hlutunum of persónulega og sný öllu upp í karlrembu, en gæti ekki verið möguleiki á að ég hafi rétt fyrir mér í þetta skiptið? Hvað finnst ykkur?

Loksins komin með eigið blogg

Loksins fékk ég mér eigið blogg svona svo að ég geti nöldrað og fengið útrás fyrir skoðanir og tilfinningar mínar sem kannski enginn annar hefur áhuga á að lesa. En ef ykkur langar til að fylgjast með, mæli ég hiklaust með því­. Nöldur mitt er mikilsvert!

Powered by Blogger