miðvikudagur, mars 23, 2005

Sönn saga

Þessi saga er sönn - og var að gerast í íslenskum bæ!!!

Í bænum hafði kona á miðjum aldri unnið í nokkur ár við að keyra út frá póstinum bækur, þvottavélar, þurrkara og annað tilfallandi. Þetta var því frekar mikil líkamleg erfiðisvinna sem hún var að standa sig með prýði í. Hún fór fram á launahækkun sem hún fékk ekki. Póststýran á staðnum sagði þá þeim fyrir sunnan að konan myndi segja upp og hætta ef hún fengi ekki launahækkun. Bossinn fyrir sunnan sagði það þá bara verða að vera þanni. Póststýran segir honum þá að hún fái aldrei aðra konu á þessum launum til að vinna þessa erfiðisvinnu. Bossinn segir henni þá bara að hún verði að ráða karlmann í starfið. Hún segir honum að hún fái ekki karlmann í starfið á þessum launum. Svarið sem hún fékk var þá einfaldlega: ,,Bjóddu honum þá hærri laun"!!!!
Konan sagði upp og ráðinn var 26 ára gamall maður í starfið - á hærri launum.

Já þetta er nú allt jafnréttið í dag!

fimmtudagur, mars 17, 2005

Ég er frjáls eins og fuglinn - flogið NÆSTUM ég gæti

Ekki dugir neitt slen, þýðir ekkert ennað en að skrifa svolítið í dagbókina.
Margt sem ég hugsa um á kvöldin sem ég þarf að skrifa um á blogginu en svo er ég alltaf búin að gleyma því þegar ég kemst á netið.
Feminisminn er þó ávallt nærtækt efni að skrifa um og endalaus tækifæri til að pirra sig á fólki sem skilur ekki hvað hann gengur út á. Hef til dæmis séð í blöðunum umfjöllun um feminisma umdir köflum sem kallast Heilsa/Allt/Konur. Þar er talað um megranir og brúðkaup ásamt alvarlegum umfjöllunum um klámvæðingu samfélagsins, sem á ekki neitt frekar skylt við konur en karla og fréttir almennt. Svo sé ég á forsíðu Fréttablaðsins í síðustu viku risa fyrirsögn (og aðalrétt) um að KARLAR SÉU AÐ SELJA SIG Á BÖRGUM BORGARINNAR. Já maður ætti kannski ekki að vera í þessum nöldurham endalaust en gæti það hugsanlega verið að það sé ekki það sama að karl selji sig og að konur selji sig? Getur verið að þjóðfélagið líti það alvarlegri augum að strákar standi sig illa í skóla og líði ekki vel þar en að unglingsstelpur séu teknar aftanfrá gegn því að komast inn í partý og að fá vín? Ekki að ég sé að gera lítið úr alvarleika þess að karlmenn séu að selja sig á börum borgarinnar, það finnst mér hræðilegt. Það mætti þó aldrei ætla að ef verið væri að tala um konur þá þyrfti að flokka þetta á einhvern hátt sem ,,kvennamál" en af því að þetta eru karla, þá er þetta FRÉTT? Vangaveltur, en það gæti verið eitthvað til í þessu.

Svo er það náttúrulega líka alvarlegt mál að strákum líði ekki vel í skóla og standi sig illa. Ég er með kenningu sem gæti skýrt hluta þess. Ég held að miklu meiri áhersla sé lögð á stelpurnar og að þær standi sig vel og séu þægar og góðar með góðar einkunnir því þannig komist þær áfram í lífinu. En strákarnir fá held ég hins vegar þau skilaboð að það skipti í rauninni ekki máli hvernig þeir standi sig í skóla, þeir komast samt áfram í lífinu. Eða ef þeir komast ekki nema upp í vörubíl þá er það bara allt í lagi því þeir eru samt duglegir og sætir strákar.

Kannski ekki algild kenning og skýrir ekki allt en ég held að þetta hafi áhrif á námsárangur krakka. Það er amk alltaf verið að tala um hvað stelpur séu með mikla fullkomnunaráráttu og að allt þurfi að vera svo frábært og þannig, kannski eru dómarar okkar strangari en strákanna, ja maður spyr sig!

Svo sá ég grein á frelsi.is um að feministar vildu ekki taka ábyrgð á eigin lífi og kenndu alltaf öllum öðrum um það sem miður fer. Já gagnrýni á karlasamfélagið hlýtur náttúrulega að vera aumingjaskapur í okkur tjellingunum, andskotans væl alltaf hreint. Ætli við verðum ekki bara að hætta að klæða okkur í flegna boli og stutt pils og hætta að láta nauðga okkur og fara svo að drullast til að mennta okkur betur og hafa áhuga á pólitík til að komast áfram í samfélaginu.
Ætli besta leiðin til að komast áfram í samfélaginu eins og það er núna sé ekki að ríða sig í gegnum helvítis kallahrúguna sem stendur ofan á konunum skiptandi á milli sín völdum, peningum og Havanavindlum sem framleiddir eru í þrælabúðum höfuðóvinar frelsis.is...

miðvikudagur, mars 09, 2005

Jing Jang

Tók eitthvað test á annarri bloggsíðu (tókst samt ekki að setja niðurstöðurnar hérna!) um hvort heilinn í mér væri meira karlkyns eða kvenkyns. Komst að því að rúm 53% af heilanum á mér eru karlkyns en afgangurinn kvenkyns.
Spurningarnar snérust flestar um það hvort maður léti tilfinningar sínar stjórna sér eða skynsemina og hvort maður slúðrar eða ekki (eins og sjá má hér http://www.blogthings.com/genderbrainquiz/) - ef skynsemin kom oftar upp var maður meiri karl en annars meiri kona.

Ég læt sem sagt skynsemina ráða í 53% tilvika og þarf að leiðandi er heilinn á mér 53% karlkyns - en ég er ekki 53% skynsöm kona eða 47% heilbrigð tilfinningavera!!!Hafið þið heyrt setningarnar; það er alltaf svo mikill mórall á kvennavinnustöðum?
Konur eru konum verstar? o.s.frv.

Á mínum vinnustað hef ég aldrei heyrt konu tala illa um aðra konu né karl. Hins vegar eru karlarnir hundfúlir út í hvorn annan vegna borðtennismóts sem er í gangi: ,,Það er ekki farið eftir settum reglum og ef menn vilja spila svona þá geta þeir bara gert það, ég þarf ekkert að vera með, nöldrinöldrinöldr"- sem sagt mórall í gangi. Ha ha karlar eru körlum verstir og það er alltaf svo mikill mórall á kallavinnustöðum...

mánudagur, mars 07, 2005

au-pair

Þegar ég var tvítug var ég au-pair hjá íslenskri fjölskyldu í Englandi. Núna eru liðin 6 ár síðan ég kom heim og ég hef nánast ekkert hitt fjölskylduna síðan, sem er flutt heim. Fyrr enn í gær að þau buðu mér í mat og ég mæti galvösk á svæðið. Krakkarnir komu fram á stigapall að taka á móti mér. Þau voru 5 og 7 ára þegar ég fór frá Englandi - núna eru þau 11 og 13 og ég þekkti þau ekki. Ég gat náttúrulega getið mér þess til að þetta væru þau en ef ég hefði séð þau úti á götu hefði ég ekki einu sinni litið á þau, kannaðist ekkert við svipina á þeim. Svo þegar ég fór að spjalla við þau þá komu ýmis persónueinkenni í ljós, stelpan þurfti að sýna mér hvað hún er góð á klarinett og að læra landafræðina sína. Strákurinn var feimnari, fór fljótlega í tölvuna bara. Mjög mikið þau.
En það sem mér fannst strítið var hvað mér þykir vænt um þau, ég þurfti voða mikið að faðma þau, amk stelpuna og knúsa smá. Og að vera inn á heimilinu hjá þeim var ekkert ólíkt því þegar ég var úti, ekkert voðalega aulalegt.

Skrítið - en kannski ekki, ég var náttúrulega hálfgerð mamma þeirra. En það sem þau mundu mest eftir mér var hvað ég var hrædd við mýsnar þeirra!!! Frábært og núna eiga þau eins mýs, nema þessar eru brúnar, hinar voru hvítar - og ég ennþá jafn hrædd við þær.

föstudagur, mars 04, 2005

Ómissandi foreldrar

Ég átta mig stundum ekki á barnauppeldi fólksins í kringum mig. Kannski er það sökum þess hvernig ég var alin upp en ég á mjög erfitt með að skilja foreldra, hálffimmtugt fólk, sem smyr nesti handa fullorðnum börnum í menntaskóla, hirðir fötin þeirra úr herbergjunum og hringir í þau heim til að athuga hvort þau séu búin að fá sér að borða, og hafi ekki örugglega fundið það sem búið var að taka til handa þeim!!!

Ég ætla amk að ala börnin mín upp í að verða sjálfbjarga en ekki mömmu/pabba aular sem geta ekki gert neitt sjálf. Veit ekki hvort það er af einhverri hugsjón eða hreinræktaðri leti - nenni bara engan veginn að eyða lífinu í að smyrja nesti handa hálffullorðnu fólki.

Þetta segir kannski mikið um það að ég er ekki tilbúin til þess að eignast börn en satt að segja held ég að ég eigi ekkert eftir að verða fyrir persónuleika umskiptingu við að verða móðir. Letin rennur líklega ekkert úr mér með fylgjunni.

Svo hafa krakkar bara gott af því að sjá um sig sjálf - sérstaklega ætla ég að leggja áherslu á að dekra strákana mína ekki því margir strákar (já já og auðvitað stelpur - alltaf að vera með pólitíska rétthugsun hérna) eru svo sauðlatir og ósjálfbjarga að næstum mætti halda að þeir hafi verið prinsar á uppeldisárum sínum. Því segi ég: Mæður og feður landsins, sameinist í því að skapa almennilega eiginmenn handa kvenréttindakonum framtíðarinnar. Þær vilja enga mömmustráka!

Sé samt að það er mótsögn í þessu hjá mér - ég sjálf er sauðlöt (en held nú samt ekki alveg ósjálfbjarga) og bý reyndar með litlum prinsi sem hefur séð sig neyddan til þess að taka ábyrgðina á húsverkunum yfir á sig sökum skorts á húsmóðurvilja og hæfileikum hjá minni.
Samt er ég að mestu alin upp í að sjá um mig sjálf og laus við flest dekur.
Jæja ég kýs þá bara að láta kalla mig Frk. Ragnar Reykás héðan í frá og álykta sem svo að fólk eigi nú eftir að geta séð um sig sjálft þegar það flytur að heiman þrátt fyrir dekur heimafyrir - og öfugt. Fer samt ekki ofan af því að fólk ætti að eyða tímanum í eitthvað annað en að stjana við rassgatið á börnunum sínum - bara sjálfs síns vegna!!

þriðjudagur, mars 01, 2005

Andrea vinkona mín Róberts

Ha ha gleymdi að segja ykkur skemmtilega sögu. Fór á kaffihús á sunnudaginn. Sat þar í rólegheitum og skoðaði blaðið sem Bjargey var að fletta þegar ég lít upp að afgreiðsluborðinu. Sé ég þá að fegurðardrottningin og feministinn með meiru Andrea Róberts er að kinka kolli til mín og blikka mig, þ.e. heilsa mér! Ég náttúrulega hugsa humm þekki ég hana nokkuð persónulega? Nei ekki rak mig minni til þess. Ætli þetta sé þá önnur stelpa sem er svolítið lík henni, sú þekkir Bjargeyju samt meira og hefði þá frekar átt að vera að heilsa henni en ekki mér. Nei þetta er Andrea. Ég brosi því aulalega til hennar, roðna eins og mér einni er lagið og horfi bara niður á borðið og reyni að acta kúl. Það tekst væntanlega ekki.
Eftir smá stund sá að konan sem sat fyrir aftan mig stendur upp og gengur til Andreu og fer að spjalla við hana - hún hafði þá eftir allt saman verið að heilsa henni en ekki mér!
Já svona getur maður verið vitlaus - og latur við að nota gleraugun sín!!!!

Powered by Blogger